Yfir 100 manns hafa leitað skjóls

Hringveginum yfir Reynisfjall var lokað síðdegis vegna óveðurs og er …
Hringveginum yfir Reynisfjall var lokað síðdegis vegna óveðurs og er enn lokaður. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Yfir 100 manns hafa leitað skjóls í fjöldahjálparstöðinni sem opnuð hefur verið í Vík í Mýrdal. Mikið óveður er á svæðinu og hefur Þjóðvegur 1 frá Markarfljóti að Vík í Mýrdal verið lokaður frá því klukkan fjögur í dag.

„Hér eru yfir 100 manns og enn streymir fólk að,“ segir Ragnheiður Högnadóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, í samtali við mbl.is. Einungis er um klukkutíma frá því að fjöldahjálparstöðin var opnuð. Ragnheiður telur að eingöngu sé um erlenda ferðamenn að ræða. 

Frétt mbl.is: Fjöldahjálparstöð opnuð í Vík

Sjálf­boðaliðar munu standa vakt­ina þar til veðrinu slot­ar og er gert ráð fyr­ir því að hugs­an­lega þurfi að hafa opið í nótt. Lögreglan á Suðurlandi greinir frá því að ekki væsi um neinn í vistinni og tekur Ragnheiður undir það. „Við erum að reyna að dæla út kaffi og kexi.“

Útlit er fyrir að veðrið skáni þegar líða fer á nóttina. „Þetta fer ekk­ert að skána í dag. Gert ráð fyr­ir að það verði storm­ur und­ir Eyja­fjöll­um og í Öræf­um þar til í fyrra­málið. Þetta ætti að vera orðið skap­legra á morg­un,“ sagði Har­ald­ur Ei­ríks­son veður­fræðing­ur í sam­tali við mbl.is fyrr í dag. 

Ef fjöldahjálparstöðin verður opin í nótt er neyðarkerra frá Rauða krossinum á staðnum með 30 beddum og nóg er til af teppum. Auk þess er til fjöldinn allur af dýnum í íþróttahúsinu þar sem fjöldahjálparstöðin er til húsa. „Fólk er bara þakklát fyrir að komast inn í skjól,“ segir Ragnheiður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert