„Óafturkræft stórslys“ að rífa Sundhöllina

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist ekki vera …
Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist ekki vera ein um að telja það mistök að rífa gömlu Sundhöllina í Keflavík. Kristinn Magnússon

Það væri óafturkræft stórslys ef gamla Sundhöllin í Keflavík yrði rifin líkt og breytingar á deiliskipulagi Reykjanesbæjar gera ráð fyrir. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem birtir á Facebook síðu sinni bréf sem hún sendi skipulagsfulltrúa bæjarins.

Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni árið 1937 og var að því er Ragnheiður Elín segir mikil bæjarprýði á árum áður. „Mér fyndist það ótækt [að húsið sé rifið] og hvet aðra sem eru mér sammála að koma sínum athugasemdum á framfæri við skipulagsyfirvöld áður en að fresturinn er úti á miðnætti,“ segir Ragnheiður Elín í Facebook-færslu sinni.

Gömlu Sundhöllinni var lokað þegar nýja sundlaugin var byggð á tíunda áratug síðustu aldar og hefur húsið verið nýtt til ýmissa hluta í kjölfarið og hafði Hnefaleikafélagið m.a. aðsetur þar til skamms tíma. Ragnheiður Elín segist hafa rekið augun í það fyrir ári síðan að byggingin var til sölu og fór þá að kynna sér húsið og fékk að skoða, en þá var búið að selja hana.

Ekki ein um að telja niðurrifið mistök

Fjölsóttur íbúafundur var í Reykjanesbæ í síðustu viku þar sem m.a. var kynnt væntanlegt niðurrif Sundhallarinnar. „Ég gerði þar mínar athugasemdir og finn að ég er ekkert ein þarna,“ segir Ragnheiður Elín í samtali við mbl.is og kveðst hafa heyrt í mörgum í kjölfarið. „Þetta er eitthvað sem ég tel að við þurfum að staldra við og skoða betur.“

Í Facebook-færslu sinni segist Ragnheiður Elín líta svo á að það væri „óafturkræft stórslys“ verði þetta sögufræga hús rifið. „Vissulega má húsið muna sinn fífil fegurri og ljóst að kostnaðarsamt verður að koma því í upprunalegt horf. Það er hins vegar einfaldlega verkefni sem ráðast verður í og ég er sannfærð um að hægt sé að bindast samtökum um að fjármagna þær breytingar og finna húsinu verðugt verkefni til framtíðar.“

Gamla Sundhöllin í Keflavík hýsti um tíma Hnefaleikafélag Reykjaness.
Gamla Sundhöllin í Keflavík hýsti um tíma Hnefaleikafélag Reykjaness. Kristinn Ingvarsson

Húsið sé eitt þriggja húsa í Reykjanesbæ sem teiknuð eru af Guðjóni Samúelssyni og beri skýr höfundareinkenni hans, enda hafi Sundhöllin verið stórfalleg bygging. „Breytingar sem gerðar hafa verið í gegnum tíðina hafa ekki allar verið vel heppnaðar en þær eru afturkræfar.“

Segir Ragnheiður það bera vott um mikla skammsýni verði húsið rifið á nánast sama tíma og Reykjavíkurborg hafi byggt með miklum sóma við Sundhöll Reykjavíkur, sem Guðjón teiknaði einnig.

Leit að nýju hlutverki farið hljótt

Hún gefur líka lítið fyrir þau rök að ekki hafi tekist að finna húsinu framtíðarhlutverk, því hljótt hafi farið um allar tilraunir til að finna því nýtt hlutverk. „Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur í bænum hefur lítið orðið þeirra var. Ég flutti aftur í bæinn árið 2010 og hef ekki heyrt af þeim tilraunum. Ég sá húsið auglýst til sölu fyrir u.þ.b. ári síðan, en þegar ég stuttu síðar hafði samband við fasteignasala til þess að fá að skoða það var mér tjáð að það væri þegar selt til núverandi eigenda.“

Einnig skuli hafa í huga að stærstan hluta þess tíma sem reynt á að hafa verið að finna húsinu tilgang hefur uppbygging hér á svæðinu verið í lágmarki. „Nú eru hins vegar ýmsar framkvæmdir sem stöðvuðust eftir hrun komnar í gang aftur og því mun betri tími núna til þess að taka upp þráðinn.“

Nefnir Ragnheiður Elín að uppgerð Sundhöll gæti til að mynda verið góð viðbót við strandleiðina sem „er ein af best heppnuðu framkvæmdum hér í bæ og gríðarleg lífsgæði sem felast í því fyrir okkur íbúana að geta stundað útivist og notið náttúrunnar alla daga á þessari fallegu leið í hvaða veðri sem er. „Ég sé Sundhöllina fyrir mér sem slíkan áningarstað, hvort sem hún yrði gerð að safni, veitingastað, hóteli, svo nokkur dæmi sem verið hafa í umræðunni séu nefnd, og að með vel heppnaðri endurbyggingu mætti tryggja líf í húsinu og gróskumikið mannlíf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert