Heppnir að fara ekki niður með pottinum

Heiti potturinn, mölbrotinn ofan í sandkassanum.
Heiti potturinn, mölbrotinn ofan í sandkassanum. mbl.is/Hanna

Magnús Hákonarson hjá Hjálparsveit skáta í Kópavogi er annar tveggja manna sem fóru í útkall á þrettándu og efstu hæð fjölbýlishúss í Hörðukór í Kópavogi snemma í morgun þaðan sem heitur pottur fauk til jarðar.

Læddust meðfram handriðinu í öryggislínu

Hann segir að ekki hafi verið stætt á svölunum og því hafi þeir notast við öryggislínu. Tilkynning hafði borist um að potturinn væri laus og ætluðu þeir sér að festa hann niður.

„Við gátum læðst þarna meðfram handriðinu. Svo komum við að pottinum og erum að fara að binda hann niður, þá fýkur hann bara af stað,“ greinir Magnús frá og bætir við að potturinn hafi áður verið búinn að reisa sig upp.

„Sem betur fer héldum við ekki í hann. Það er ekki spurning að við hefðum farið niður með honum ef við hefðum haldið í hann eða verið eitthvað kræktir í hann.“

Magnús segir að potturinn hafi verið mjög stór, eða tólf manna, og að um þakíbúð hafi verið að ræða.

mbl.is/Hanna

„Fór bara í döðlur“

Hann og félagi hans horfðu á eftir pottinum fara yfir þakið á leikskólanum Kór við Baugakór og þaðan ofan í sandkassa. Líklega hafi potturinn fyrst haft viðkomu á þaki leikskólans. Sem betur fer hafi enginn verið á ferli. „Hann fór bara í döðlur,“ segir Magnús, spurður hvort potturinn hafi ekki brotnað.

Varstu ekki hræddur að vera uppi á þrettándu hæð í þessu veðri?

„Nei, ekki af maður passar sig,“ svarar hann, en tekur fram að hann hafi aldrei lent í öðru eins á þrjátíu ára ferli sínum í björgunarsveit. „Það gerist ekki svona á hverjum degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka