Sveinn ráðinn í utanríkisráðuneytið

Sveinn H. Guðmarsson.
Sveinn H. Guðmarsson.

Sveinn H. Guðmarsson, sem starfað hefur sem upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands frá árinu 2016, hefur verið ráðinn í starf fjölmiðlafulltrúa hjá utanríkisráðuneytinu.

Ráðuneytið hefur ekki sent frá sér formlega tilkynningu, en aðrir umsækjendur um stöðuna hafa fengið svarbréf við umsókn sinni, þar sem greint er frá ráðningu Sveins.

Sveinn hefur lengi starfað við fjölmiðla, lengst af á fréttastofu RÚV. Hann er með BA-próf í guðfræði frá Háskóla Íslands og MSc.-gráðu í alþjóðastjórnmálum frá Edinborgarháskóla.

Staðan var auglýst til umsóknar í lok október. Alls bárust 75 umsóknir, en 16 drógu umsókn sína til baka. Því voru 59 umsækjendur um stöðuna.

Urður Gunnarsdóttir hafði gegnt starfi fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins í tíu ár, en hún hefur fært sig til í starfi innan ráðuneytisins.

Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg.
Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert