220 leituðu á bráðamóttöku í gær

Mikill fjöldi kom á bráðamóttökuna í gær.
Mikill fjöldi kom á bráðamóttökuna í gær. mbl.is/Hjörtur

220 einstaklingar leituðu á bráðamóttökuna í gær og um helmingur þeirra þurfti aðstoð vegna hálkuslysa. Er þetta mesti fjöldi sem leitað hefur á bráðamóttökuna á einum degi í langan tíma. Þetta er meðal þess sem kemur fram í vikulegum pistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, sem birtist á heimasíðu spítalans í dag.

„Meiðslin eru misalvarleg en mikill fjöldi hefur þó þurft skurðaðgerð og legu hjá okkur í framhaldinu. Samhliða færist inflúensan enn í aukana svo álagið á spítalanum er með mesta móti. Þessi árstíðabundna aukning í starfseminni kemur okkur auðvitað ekki á óvart, þótt vissulega sé hér nokkur viðbót við það sem við erum vön að sjá.“

Páll segir æskilegt að hægt væri að fjölga starfsfólki og auka framboð legurýma við þessar aðstæður. Því miður sé staðan þannig núna að vegna skorts á starfsfólki, sérstaklega hjúkrunarfræðingum, hafi frekar þurft að fækka legurýmum en hitt. „Hér er á ferðinni risastórt úrlausnarefni sem horfa verður út fyrir Landspítala til að leysa,“ segir hann.

Þrátt fyrir þetta gerðust líka jákvæðir hlutir á spítalanum í vikunni sem er að líða. „Í vikunni fögnuðum við opnun nýrrar og endurbættrar aðstöðu Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Það er okkur dýrmætt að geta boðið notendum þessarar viðkvæmu þjónustu styðjandi umhverfi en umbæturnar byggja á niðurstöðu Lean-vinnustofu sem haldin var með fjölda fulltrúa þeirra sem að þessum málum koma.“

Páll segir að leitað hafi verið samstarfs innan og utan Landspítala við þá sem að málum þessum koma og að aðstoð fulltrúa þolenda og aðstandenda þeirra hafi verið sérstaklega mikilvæg. „Hvað verklag í þjónustunni sjálfri varðar hafa þegar verið gerðar umtalsverðar umbætur og við vinnum áfram að því að bæta þjónustuna í samræmi við stefnu Landspítala.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert