Bandarísk stúlka flytur íslenska þjóðsönginn

Marjorie hefur náð ótrúlegum tökum á íslenskunni á aðeins átta …
Marjorie hefur náð ótrúlegum tökum á íslenskunni á aðeins átta mánuðum.

Það eru ekki nema um átta mánuðir síðan hin 18 ára gamla Marjorie Westmoreland hóf að læra íslensku með því að horfa á myndbönd á íslensku á Youtube, hlusta á upptökur sem hún finnur á netinu og lesa íslenskar bækur. Marjorie, sem býr í Texas í Bandaríkjunum, er nú orðin svo fær í tungumálinu að hún getur lesið sér til gagns og kann íslenska þjóðsönginn alveg upp á tíu. Sem er meira en má segja um marga Íslendinga.

Móðir hennar, Marjorie Nichols, hafði samband við mbl.is og sendi okkur upptöku af henni syngja þjóðsönginn í brúðkaupi vinafólks í Austin í Texas 6. janúar síðastliðinn. Marjorie yngri bauðst til að sjá um tónlistaratriði við athöfnina og íslenski þjóðsöngurinn varð fyrir valinu.

Það var að sjálfsögðu hún sem aðstoðaði móður sína við að finna út hvar ætti að hafa samband við blaðamann í gegnum mbl.is-síðuna, enda skilur sú eldri ekki stakt orð í íslensku.

Líkt og heyrist á upptökunni, sem er meðfylgjandi, er hún ekki bara sleip í íslensku, heldur er hún líka frábær söngkona.

Lærir fjölda tungumála en íslenskan í uppáhaldi

Í stuttu spjalli við mbl.is segir móðir hennar hana vera með einhverfu og að hún hafi ótrúlega gott sjónrænt minni, sem geri henni auðvelt að læra utan að og leggja á minnið. „Hún er einstaklega fær í tungumálum og hefur líka lært rússnesku, grísku, úkraínsku og þýsku, en íslenska er í uppáhaldi hjá henni. Hún er heilluð af landinu og elskar að lesa um menninguna, söguna og tungumálið. Hún þráir að heimsækja Ísland einn daginn,“ segir hún en fjölskyldan hefur engin tengsl við Ísland.

Í fyrra skrifaði Marjorie Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, meira að segja bréf á íslensku og fékk svarbréf frá honum sjálfum, undirritað. Henni þótti það mjög mjög spennandi.

Marjorie segir dóttur sína einnig hafa mikla hæfileika þegar kemur að tónlist, bæði söng og hljóðfæraleik, en hún hefur stundað píanóleik og er sjálflærð í söng. Marjorie tekur fram að því miður hafi þau ekki efni á að senda hana í söngnám.

Marjorie yngri er elst fjögurra systkina og móðir hennar segir engan í fjölskyldunni hafa sömu náðargáfu í tungumálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert