Ætla að loka þakinu áður en veður versnar

Eldur kom upp í Hellisheiðarvirkjun í gær. Unnið er nú …
Eldur kom upp í Hellisheiðarvirkjun í gær. Unnið er nú að því að loka þakinu þar sem eldurinn stóð upp áður en veður versnar. mbl.is/Hanna

Orkuvinnsla í Hellisheiðarvirkjun er óðum að komast í eðlilegt horf og viðgerðir á stöðvarhúsinu eru hafnar eftir að eldur kom upp í þaki virkjunarinnar í gærmorgun. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orku náttúrunnar, segir nú unnið að því að loka þaki hússins áður en veður fer að versna.

Tækjabúnaður Orku náttúrunnar virðist hafa sloppið, en skemmdir virðast vera bundnar við þak og rýmið undir því þar sem eldurinn kom upp. „Þetta er ekki mjög stór flötur, en við þurfum að loka þeim stað á þakinu þar sem eldurinn logaði upp úr í gær,“ segir Eiríkur. „Menn eru nú að vinna að því núna að finna klókustu leiðir til þess áður en veður fer að versna meira þegar líður á daginn.“ Hann bætir því við að eingöngu sé um bráðabirgðaviðgerðir að ræða.

Háþrýstivél, sem sló út er eldurinn kom upp, var gangsett tæpum sólarhring eftir eldsvoðann. Útlit er fyrir að lágþrýstivél og varmastöð, sem slökkt var á í öryggisskyni meðan á slökkvistarfi stóð, verði gangsettar í dag. Bruninn hefur því ekki áhrif á orkuafhendingu til almennings, hvorki á rafmagni né heitu vatni að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Orku náttúrinnar.

Spurður hvort forsvarsmenn Orku náttúrunnar hafi einhverjar hugmyndir um hvað kunni að hafa valdið eldinum segir Eiríkur svo ekki vera. „Við látum lögreglu alveg um það að safna gögnum og erum ekki að fara í neinar spekúlasjónir um það,“ segir hann. Von er á rannsóknardeild lögreglu sem sér um brunarannsóknir á svæðið og mun hún sjá um rannsóknina. Orka náttúrunnar mun þó að sögn Eiríks aðstoða lögreglu við að upplýsa eldsupptök eftir því sem þörf er á.

Jarðhitasýning Orku náttúrunnar í virkjuninni, sem vinsæl er hjá erlendum ferðamönnum, verður þá lokuð fram í næstu viku hið minnsta.

Skemmdirnar á þaki Hellisheiðarvirkjunar eftir brunann.
Skemmdirnar á þaki Hellisheiðarvirkjunar eftir brunann. Ljósmynd/Orka náttúrunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert