Slær upp í storm með takmörkuðu skyggni

Veðurútlit á hádegi í dag.
Veðurútlit á hádegi í dag.

Strekkingssunnanátt með éljum verður á landinu sunnan- og vestanverðu í dag, 10-18 m/s en léttskýjað norðaustanlands.

Myndarlegur úrkomubakki sést nú úr vestri á undan meginlægðinni að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Með morgninum fer veður versnandi á fjallvegum um vestanvert landið, allt norður á Holtavörðuheiði og vestur á Vestfirði. Á Hellisheiði og Mosfellsheiði gerir þannig talsvert mikla hríð upp úr hádegi og með vaxandi vindi og ofankomu eftir því sem líður á daginn. Á láglendi verður hiti víðast rétt ofan frostmarks.

Það hvessir síðan með kvöldinu og snýst í suðvestan 13-23 m/s og verður úrkoman þá næstum samfelld. Í éljunum gæti slegið upp undir storm af og til með mjög takmörkuðu skyggni.

Þar sem hitastig verður nálægt frostmarki „mun hver gráða til eða frá skipta miklu máli hvort úrkoman verði í formi rigningar eða slyddu eða slyddu og snjókomu,“ að því er segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings hjá Veðurstofunni.

Næst ströndinni má þó frekar gera ráð fyrir rigningu, en slyddu og  svo snjókomu eftir því sem innar í landið er farið.

Fljótlega eftir miðnætti snýst síðan í hvassa suðvestanátt, kólnar og fellur úrkoman þá sem snjóél. Útlit er fyrir að það hvessi enn frekar í éljunum og skyggni verði mjög takmarkað sem aftur kann að valda staðbundnum truflunum í umferðinni.

Á mánudag verður síðan komin norðlæg átt og úrkoman einkum bundin við norðanvert landið og frost um allt land.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert