Stormur og hríðarbylur í kortunum

Veðurstofa hefur gefið út gula viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, …
Veðurstofa hefur gefið út gula viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði og Strandir og Norðurland vestra. Mynd/Veðurstofa Íslands

Ört dýpkandi lægð fer yfir vestanvert landið í nótt og í kjölfar hennar gerir storm með hríðarbyl. Í því vonskuveðri sem spáð er á morgun er ferðalöngum bent á að leggja ekki í hann nema að vel athuguðu máli.  

Víða verður stormur og allt að 23-28 m/s norðanlands um kl. 9 í fyrramálið og hríðarbylur. Þá er varað við stórvarasömum hviðum á sama tíma í vestanverðum Eyjafirði, allt að 45-50 m/s. Einnig gæti slíkt hið sama átt við í Skagafirði á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks.

Víða hálka eða hálkublettir á vegum

Víða á Suður- og Suðvesturlandi er nokkur hálka eða hálkublettir. Snjóþekja og krapi eru á Hellisheiði, Mosfellsheiði og í uppsveitum Suðurlands. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er víða nokkur hálka, krapi eða snjóþekja og sums staðar skafrenningur. Éljagangur er á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. 

Hálka eða hálkublettir eru á köflum á Suðausturlandi. Öxi var einnig opnuð í dag og þar eru hálkublettir. Á Norður- og Austurlandi er hins vegar mikið autt eða aðeins hálkublettir. Hálka er þó á Öxnadalsheiði, Möðrudalsöræfum og á fáeinum útvegum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert