Tenging til suðurs bæti ekki raforkuöryggi

VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði.
VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði. mbl.is/Golli

„Þeir tala þarna um launafl og að það sé lítið fjallað um það, en við erum nú reyndar með heilan kafla í skýrslunni um það og hvaða aðferðum megi beita til að mæta launaflsvandamálum. Ég tók eftir því að Magni [Þór Pálsson, verkefnastjóri rannsókna] hjá Landsneti minnist ekkert á slíkar aðferðir sem er hægt að nýta, þannig að ég myndi nú segja að hann þyrfti líka að endurmeta forsendurnar hjá sér,“ segir Þórhallur Hjartarson, framkvæmdastjóri hjá kanadíska ráðgjafafyrirtækinu METSCO, sem vann skýrslu um bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum fyrir Landvernd.

Þórhallur bendir á að mögulegt sé að setja upp svokallaðar „spólur“ til þess að vinna upp á móti launaflsvandanum sem fylgir jarðstrengjum. Það hafi ekki verið gert á Íslandi svo hann viti til, en sé notað víða um heim með góðum árangri.

„Það er svona tæknilegt atriði sem þyrfti að skoða betur,“ segir Þórhallur. Hann leggur til að Landsnet rannsaki þennan valmöguleika í þaula og segir að kostir jarðstrengja gleymist oft í umræðunni.

Hægt að byrja þar sem bilanatíðnin er hæst

Niðurstöður skýrslu METSCO voru meðal annars þær að hægt væri að tífalda afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum með auknum jarðstrengjalögnum. Helst er mælt með að ráðist verði í umfangsmiklar jarðstrengjalagnir, næstum 200 kílómetra, en Þórhallur segir að í skýrslunni komi einnig fram að hægt væri að byrja smærra.

„Það mætti skoða hvar þessar bilanir hafa helst orðið. Þar mætti byrja á að leggja jarðstrengi. Þá erum við að tala um mun styttri vegalendir og ódýrari fjárfestingu,“ segir Þórhallur.

Hvalárvirkjun ein og sér bæti ekki afhendingaröryggi

Skýrsla METSCO fjallar ekki sérstaklega um möguleg áhrif Hvalárvirkjunar, en þó vísa skýrsluhöfundar til þess sem áður hefur komið fram, meðal annars í skýrslu Landsnets frá árinu 2015, að með tengingu til suðurs í núverandi kerfi hafi Hvalárvirkjun lítil áhrif á raforkuöryggi Vestfjarða.

„Við vorum ekki beðin um að skoða hvernig Hvalárvirkjun kæmi að. Það eina sem við vorum með var að það væri fyrirsjáanleg tenging þarna sunnarlega á Vestfjörðum, en flestar bilanirnar eru eftir það og það myndi því lítið bæta raforkuöryggi fyrir álagspunktana, sem eru á Ísafirði og Bolungarvík og þar,“ segir Þórhallur.

Kort/Kristinn Garðarsson

Hann segir að hugsanlegur sæstrengur eftir Ísafjarðardjúpi og að Ísafirði breyti þeim forsendum sem skýrsluhöfundar studdust við, en VesturVerk ehf., sem undirbýr gerð Hvalárvirkjunar, gagnrýndi í yfirlýsingu að sú sviðsmynd hefði ekki verið skoðuð við gerð skýrslunnar. 

Þórhallur segir að slík tenging myndi verulega bæta raforkuöryggi Vestfirðinga og það án tilkomu virkjunarinnar.

„Við vorum ekki að meta virkjunina að neinu leyti. Við vorum fyrst og fremst að bera saman möguleikana í kerfinu og hvernig mætti bæta það, hvort jarðstrengir gætu bætt rafmagnsöryggi,“ segir Þórhallur við því.

Landvernd sendi frá sér fréttatilkynningu um útgáfu skýrslunnar, en þar er skýrslan sögð taka af „öll tvímæli um það að virkjun Hvalár og sú tenging hennar við flutningskerfi sem hefur verið í umræðunni, styrkir sem slík ekki raforkuöryggi Vestfirðinga.“

Þórhallur segir að það sé raunin, Hvalárvirkjun muni ekki bæta raforkuöryggið á Vestfjörðum að neinu ráði með tengingu til suðurs, í núverandi kerfi.

Kostir jarðstrengja gleymist oft

„Fyrir 20 árum síðan voru lagðir jarðstrengir frá Kópaskeri til Þórshafnar og svo seinna frá Þórshöfn til Raufarhafnar. Þetta eru samtals um 80 kílómetrar af jarðstrengjum og kerfið þar er að mörgu leyti veikt eins og á Vestfjörðum. Þar hafa ekki verið nein vandamál, en áður voru bilanir á hverju ári nánast á línunni sem lá til Þórshafnar,“ segir Þórhallur, en hann segir lága bilanatíðni jarðstrengja miðað við loftlínur oft gleymast í umræðunni.

Virkjunarsvæði fyrir Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum.
Virkjunarsvæði fyrir Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. mbl.is/Golli

„Að því sem ég best veit hefur ekki orðið ein einasta bilun á jarðstrengnum sem liggur frá Kópaskeri til Þórshafnar, en hins vegar hefur loftlínan sem fer frá Laxá að Kópaskeri bilað nokkuð reglulega. Þetta er gott dæmi um það hvað jarðstrengir geta gert í sambandi við áreiðanleika,“ segir Þórhallur.

Hann bætir því við að Landsnet hafi á síðustu árum tekið sig mjög á í jarðstrengjalögnum, sem sé af hinu góða.

„Þeir eru að skoða jarðstrengslagnir þar sem þær gætu átt við, til dæmis til Sauðárkróks og víðar og það tel ég að sé bara hið besta mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert