Björgunarsveitir kallaðar út á Akureyri og Sauðárkróki

Björgunarsveitir sinna nú foktengdum verkefnum á Norðurlandi. Mynd úr safni.
Björgunarsveitir sinna nú foktengdum verkefnum á Norðurlandi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Björgunarsveitir á Akureyri, í Hrísey og á Sauðárkróki voru kallaðar út um níuleytið í morgun til að sinna foktengdum verkefnum. Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, var nóttin annars róleg hjá björgunarsveitarfólki og ekki fyrr en um níu sem beiðnir tóku að berast.

Að sögn Þorsteins Jónssonar, vakthafandi veðurfræðings hjá Veðurstofunni, hefur veður nú versnað mikið um miðbik Norðurlands og er að ná hámarki þar. „Þessar hviður hafa verið ansi skarpar,“ segir hann. Vindur hafi til að mynda farið upp í 55 m/s í hviðu við Ólafsfjarðarmúla, þó að meðalvindur þar hafi varla náð 22 m/s. „Síðan hefur líka verið mjög hvasst við Siglufjörð og Héðinsfjörð og þar hafa hviðurnar náð 35 m/s og við Herkonugil fór hviða upp í 45 m/s.“

Segir Þorsteinn mikið aftakaveður vera við Eyjafjörðinn nú fyrir hádegi. „Og það er ekki búið enn,“ bætir hann við. Einnig sé mjög hvasst í Skagafirðinum þessa stundina. Við Stafá mælist hviður upp í 40 m/s og vindhraði sé um 23 m/s. Við Bergstaði er vindhraðinn 28 m/s og á Skagatá hafa hviður farið í 35 m/s og vindhraðinn mælist 27 m/s.

„Þetta er mikill hvellur á Mið-Norðurlandi nú í morgun en svo gengur þetta vonandi niður um hádegi,“ segir Þorsteinn.

Vegagerðin hvetur fólk til að leggja ekki í ferðalög nema að vel athuguðu máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert