„Nú er komið nóg“

Katrín Jónsdóttir var lengi fyrirliði íslenska liðsins.
Katrín Jónsdóttir var lengi fyrirliði íslenska liðsins. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Það mikilvægasta við #metoo-herferðina er að leiðrétta þau viðhorf að kynferðisofbeldi, kynferðisleg mismunun og áreitni sé eðlilegur hluti af lífi kvenna. „Þessi bylting er búin að vera mjög mikilvæg og það er gott að fá að upplifa þessa tíma og breytinguna sem er í gangi.“ Þetta segir Katrín Jónsdóttir, fótboltakona og fyrrverandi landsliðsfyrirliði, í samtali við mbl.is.

Eftir að íþróttakonur sendu frá sér yfirlýsingu með undirskriftum og sögum fjölmargra sem höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi og áreitni birti Katrín pistil á Facebook þar sem hún sagði frá atviki sem kom fyrir hana þegar hún var 21 árs.

Bauð upp á rauðvínsglas og sagðist þurfa ástkonu

Hún hafði verið boðuð á fund til að ræða það sem hún hélt að væri samningsmál við mann hjá íþróttafélagi. „Hinsvegar var mér boðið upp á rauðvínsglas og maðurinn fór að tala um að hann þyrfti á ástkonu að halda. Það var alveg augljóst mál að hann hafði í hug[a] einhverja rómantík þetta kvöld,“ segir í pósti Katrínar. Segist hún ekki hafa orðið reið heldur hissa og fundist aðstæðurnar og framkoman fáránleg. Hún hafi því farið fljótlega og aðeins sagt nokkrum af sínum nánustu frá þessu.

Síðar meir hafi hún svo komist að því að maðurinn hafi áreitt fleiri í liðinu en enginn þorað að segja neitt. „Ég hefði gert stórmál úr þessu hefði þetta gerst í dag, því þetta er engan veginn í lagi,“ segir Katrín.

Í samtali við mbl.is segir Katrín að hún hafi ekki velt þessari uppákomu mikið fyrir sér í gegnum árin og hún hafi ekki haft mjög djúpstæð áhrif á sig. Með sögum annarra kvenna síðustu daga hafi komið greinilega í ljós að þetta sé hins vegar viðvarandi ástand fyrir margar konur og því miður hafi margar lent í mun verri hlutum en hún sjálf og vísar þar meðal annars í sögur um nauðganir sem birtar voru í vikunni.

Kallar eftir siðareglum og verkferlum hjá sérsamböndum og félögum

„Mín saga er „peanuts“ miðað við margar aðrar sögur, en það er samt svo mikið af svona málum sem hafa átt sér stað. Óeðlileg samskipti þar sem hinn aðilinn hefur ekki séð neitt athugavert við þetta,“ segir Katrín og vill að þessar sögur verði til þess að viðhorf í svona málum verði leiðrétt. „Nú er komið nóg og svona samskipti eiga ekki að eiga sér stað,“ segir Katrín.

Hún segir að vonandi verði þessi breyting hjá sem flestum, þó að líklega verði aldrei hægt að koma í veg fyrir þetta alveg. Þá segir hún mikilvægt að lagað verði hvernig viðbrögð séu þegar svona mál komi upp. „Vonandi verður minna af þessu og ef eitthvað gerist verði verkferlar og siðareglur hjá sérsamböndum og félögum sem grípa inn í.“ Þá segir Katrín að skoða eigi að koma upp trúnaðarmönnum sem hægt sé að leita til ef upp komi atvik sem þessi. „Hingað til hefur allt verið lokað ef einhver lendir í svona,“ segir hún.

Börn geti stundað íþróttir og tómstundir í eðlilegu umhverfi 

Það er svo mikilvægt að stíga þetta skref núna svo að næstu kynslóðir muni ekki upplifa það sem fram hefur komið í lýsingum kvenna undanfarna daga. Ég vil að dóttir mín og önnur börn geti stundað íþróttir og tómstundir í eðlilegu umhverfi án þess að takast á við svona rugl,“ segir Katrín. 

Katrín Jónsdóttir, fv. landsliðsfyrirliði, segir mikilvægt að breyta viðhorfum um …
Katrín Jónsdóttir, fv. landsliðsfyrirliði, segir mikilvægt að breyta viðhorfum um hvað sé eðlileg hegðun og hvað ekki. Hún eigi sjálf dóttur sem eigi ekki að þurfa að kljást við slíka óeðlilega hegðun velji hún að fara í íþróttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Katrín segir að hún hafi í gegnum tíðina orðið vitni að áreitni og óeðlilegum samskiptum. Hún hafi þó ekki orðið vitni að verstu tilvikunum, líkt og nauðgunum, sem lýst er í sögum íþróttakvennanna. Allar sögurnar hennar eigi það sameiginlegt að þar spili inn í ákveðið valdamisræmi þar sem gerandinn sé í meiri valdastöðu og sjaldnast sé um jafningja að ræða innan félaganna. Segir hún að þó að svona mál séu sem betur fer ekki daglegt brauð sé ljóst að þau séu algeng og fjöldinn allt of mikill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert