Lægðin hefur ekki lokið sér af

Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Lægðin sem fór yfir landið í gær hefur hvergi lokið sér af með okkur enn þá því í dag kemur hún inn á Norðurland og færist síðan til austurs. Í nótt fer hún síðan aftur norður fyrir land með ofankomu og hvassviðri.

„Nú er lægðin sem fór yfir landið í gær að koma að norðurströndinni aftur og mun því hvessa fyrir norðan með aukinni úrkomu. Sunnan til á landinu er norðvestanáttin óðum að taka yfir eftir suðvestanáttina enda kominn mun minni vindur og úrkoma. Lægðin margumrædda hefur ekki lokið sér af með okkur enn þá því að í dag kemur hún inn á Norðurland og færist síðan til austurs.

Í nótt færir hún sig síðan aftur norður fyrir land og því hvessir aftur með ofankomu fyrir norðan á morgun. Eins er útlit [fyrir] að [það] hvessi með ofankomu um allt vestanvert landið um tíma á morgun og því gott að fylgjast vel með spám því minni háttar breytingar á staðsetningu lægðarinnar getur haft miklar breytingar í för með sér hvar veður verður vont á hverjum tíma,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðvestan 13-23 V-til, hvassast á Vestfjörðum og Ströndum, en heldur hægari SV-læg átt fyrir austan fram eftir degi. Dregur úr vindi síðdegis, víða norðvestan 8-15 seint í kvöld, en hvassari SA-lands. Snjókoma eða él á N-verðu landinu, en léttir víða til syðra.
Norðvestan og vestan 13-20 og víða snjókoma fyrir norðan í fyrramálið og einnig V-til síðdegis, en annars hægari breytileg átt og úrkomulítið. Dregur úr vindi seint á morgun. Frost yfirleitt 0 til 7 stig.

Á þriðjudag:
Norðvestan 10-18 m/s með snjókomu eða éljum, hvassast á annesjum vestast, en mun hægari og bjartviðri S- og A-til. Frost víða 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins. 

Á miðvikudag:
Norðaustlæg átt 3-10 m/s og víða dálítil él. Hiti breytist lítið. 

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:
Norðlægar áttir og snjókoma eða él á norðanverðu landinu, en úrkomulítið syðra. Frost 0 til 10 stig, mildast við ströndina. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með úrkomu og hlýnandi veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert