Málið haft neikvæð áhrif á sálarlífið

Pétur Jónasson, fyrrum starfsmaður eigin viðskipta Glitnis situr aftast í …
Pétur Jónasson, fyrrum starfsmaður eigin viðskipta Glitnis situr aftast í dómsalnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Pétur Jónasson er einn fimm ákærðra í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis. Hann vann í deild eigin viðskipta hjá Glitni frá mars og fram í september árið 2007. Þá hvarf hann til annarra starfa innan bankans, en í maí árið 2008 var honum sagt upp störfum hjá Glitni og fylgt út á stétt samdægurs.

„Ég var ekki merkilegri starfsmaður en það,“ sagði Pétur, við aðalmeðferð málsins í morgun.

Er Pétur var ráðinn til Glitnis var hann nýkominn úr námi, 25 eða 26 ára gamall, að eigin sögn, en hann er með BA-próf í hagfræði og meistaragráðu í viðskiptafræði.

Hann leit á Jónas Guðmundsson sem óformlegan yfirmann sinn í starfi, þrátt fyrir formlega hafi Magnús Pálmi Örnólfsson verið næsti yfirmaður hans.

„Ég beið í fimm ár eftir því hvort þeir ætluðu að ákæra mig,“ sagði Pétur, en hann var fyrst tekinn í skýrslutöku vegna málsins árið 2011. Ákæra var síðan ekki gefin út fyrr en árið 2016, sem Pétur segir að hafi verið honum þungbært.

„Að hafa stöðu sakbornings í sjö ár hefur haft mjög neikvæð áhrif á minn starfsferil,“ sagði Pétur, sem telur sig ekki hafa getað leitað framgangs í starfi þrátt fyrir að starfa nú á vettvangi sem er ótengdur hlutabréfaviðskiptum.

„Ég tala nú ekki um hvaða áhrif það hefur á fjölskyldu og sálarlíf að setja líf sitt á pásu í sjö ár, enda hef ég þurft að leita mér hjálpar út af því,“ bætti hann við.

Telur viðskiptin hafa verið í hagnaðarskyni

Pétur sagðist ekki telja að um brotastarfsemi hafi verið að ræða og að viðskipti deildar eigin viðskipta hjá Glitni með hlutabréf í Glitni hafi verið í hagnaðarskyni á þeim tíma er hann vann í deild eigin viðskipta hjá Glitni.

Björn Þorvaldsson, saksóknari, spurði Pétur út í það mikla tap sem Glitnir varð fyrir vegna viðskipta bankans með eigin bréf á ákærutímabilinu, alls um 17,4 milljarðar króna.

Pétur svaraði því til að hann hefði einungis unnið hluta ákærutímabilsins innan deildarinnar. Á þeim tíma er hann starfaði við deildina hafi verið lítið tap.

Slegið á létta strengi

„Er í lagi með þetta vatn,“ sagði Pétur á einum tímapunkti skýrslutökunnar við dómsformanninn, Arngrím Ísberg og benti á vatnskönnu á borðinu.

Héraðsdómarinn Arngrímur svaraði því þá til að dómari væri búinn að prófa vatnið – það væri í lagi.

Myndast einhver „tungumálakúltúr“

Um tölvupóstsamskipti við Jónas Guðmundsson þann 20. ágúst 2007, þar sem Pétur skrifar meðal annars: „Tók Gl.B. upp í 27.75,“ sagði Pétur að núna rúmum tíu árum seinna þætti honum tölvupósturinn „ótrúlega illa skrifaður“ og að auðvelt væri að misskilja við hvað væri átt.

Glefsur úr hljóðrituðum símtölum voru einnig bornar undir Pétur af ákæruvaldinu og þá vísaði hann, rétt eins og Jónas Guðmundsson til þess að langur tími væri liðinn frá samtölunum og því gæti hann lítið svarað fyrir það sem þar kæmi fram – hann myndi það ekki.

„Á þessum tíma eru menn að vinna mikið saman og það myndast svona einhver tungumálakúltúr, erfitt að vita hvað er átt við tíu árum seinna,“ sagði Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert