Ekki leyfa börnum að flýja óttann

Foreldrar eru gjarnir á að hlífa börnum við aðstæðum sem …
Foreldrar eru gjarnir á að hlífa börnum við aðstæðum sem skapa þeim vanlíðan. Betra er að aðstoða þau að yfirvinna óttann með því að mæta honum. mbl.is/Hari

„Eina leiðin til að ná stjórn á ótta er að mæta áreitinu og uppgötva að það er ekki eins hræðilegt og maður hélt,“ segir Urður Njarðvík, dósent við sálfræðideild Háskóla Íslands (HÍ) sem hélt í dag erindi um samspil kvíða og hegðunarvanda barna undir yfirskriftinni Er þetta ekki bara frekja? í hátíðarsal HÍ. Í samtali við mbl.is segir hún fyrstu viðbrögð foreldra oft vera þau að forða barninu úr aðstæðum sem valdi þeim vanlíðan. „Það er ekki gott því það styrkir þessi einkenni.“

Hægt er að horfa á erindið í heild á myndskeiði hér að neðan.

Að sögn Urðar geta kvíðaeinkenni hjá börnum verið ólík einkennum fullorðinna vegna þess að börn hafa takmarkaðri getu til að tjá tilfinningar sínar. „Einkennin geta því brotist út með öðrum hætti svo sem með pirringi, skapsveiflum, árásargirni og ójafnvægi. Allt þetta getur því verið merki um vanlíðan. En svona hegðun er hins vegar mjög auðvelt að mistúlka sem mótþróa og skort á samstarfsvilja.“

Geta ung sýnt fælniviðbrögð

Spurð hversu ung börn séu að greinast með kvíða segir Urður að börn niður í fjögurra ára geti sýnt fælniviðbrögð við áreiti. Þau geti til dæmis verið mjög hrædd við vatn eða ákveðna dýrategund. Algengast sé þó að þau séu greind með kvíða við 7-9 ára aldur.

„Kvíði og ótti er eðlilegur hluti af lífi okkar,“ bendir Urður á. „Við finnum öll fyrir þessu. En við förum að líta á þetta sem vandamál þegar kvíðinn er með þeim hætti að barnið ræður ekki við aðstæður sem jafnaldrar þess ráða vel við. Barnið sýnir þá ótta í aðstæðum sem það ætti að geta ráðið við miðað við aldur og þroska. Það er svo aftur farið að valda hömlum í daglegu lífi, trufla barnið og koma í veg fyrir að það geti tekið þátt í hlutum sem það vill taka þátt í. Þetta getur farið að hamla námsárangri, félagslegri virkni og öðru slíku.“

Urður bendir á að eins og með margt annað sé mikilvægt að greina kvíðann sem fyrst. „Því fyrr sem hann er greindur því auðveldara verður að breyta hegðuninni áður en hún nær að festast í sessi.“

Hún bendir ennfremur á að þunglyndi sé algengur fylgikvilli kvíða. „Sá sem glímir lengi við kvíða er líklegur til að þróa með sér þunglyndiseinkenni sem er afleiðing af því að lifa með svona hömlum sem geta fylgt kvíðanum.“

Börn eru að sögn Urðar sérstaklega viðkvæm því að þeirra persónuleiki og sjálfsmynd er í mótun. „Kvíði getur haft áhrif á það og komið í veg fyrir að barnið kynnist eigin styrk. Þess vegna er gott að greina þetta sem fyrst.“

Urður Njarðvík, dósent við sálfræðideild Háskóla Íslands fjallaði í dag …
Urður Njarðvík, dósent við sálfræðideild Háskóla Íslands fjallaði í dag um birtingarmynd kvíða meðal barna og unglinga og hvernig foreldrar geta tekist á við þennan vanda heima fyrir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Í erindi sínu fjallaði Urður einnig um hvernig foreldrar og aðrir aðstandendur barna geta tekið á kvíðavanda sem upp kemur. „Tilhneiging okkar er alltaf að vernda barnið fyrir vanlíðan,“ segir hún. „Fólk er oft fljótt að fara að passa upp á að barnið þurfi ekki að mæta því sem veldur streitunni. Það er ekki gott því það styrkir þessi einkenni.“ Hún segir að bregðast þurfi við með öðrum hætti. „Aðalatriðið er að barnið fái hvatningu og meiri athygli á það sem vel er gert og minni athygli á þennan ótta. Helst á ekki að leyfa þeim að flýja undan honum.“

Slíkt þarf þó að gera með rólegum og yfirveguðum hætti. „Kvíði er ákveðið örvunarástand og til eru leiðir til að hjálpa barninu að róa sig niður. Þau hugsa ekki skýrt þegar þau eru í æsingsástandi.“ Hún segir mikilvægt að brjóta leiðina að því sem óttast er niður í skref svo barnið fái meiri yfirsýn og hafi tilfinningu fyrir framvindu sinni. „Eina leiðin til að ná stjórn á ótta er að mæta áreitinu og uppgötva að það er ekki eins hræðilegt og maður hélt.“

Sjái að ekkert hræðilegt er á ferð

Hún tekur einfalt dæmi: „Ef þú ert með ungt barn sem verður rosalega hrætt þegar þú ert að ryksuga þá er einfalt að falla í þá gryfju að ryksuga bara þegar barnið er ekki heima svo að það þurfi aldrei að sjá eða heyra í ryksugu. En þú getur haft ryksuguna úti á gólfi og leyft barninu að pota í hana og skoða og kveikt svo á henni annað slagið svo barnið venjist henni og sjái að ekkert hræðilegt er á ferð.“

Urður segir að ef kvíðinn sé orðinn mjög alvarlegur þurfi að leita hjálpar sérfræðinga. „Það er hægt að leita til sálfræðinga bæði í skólakerfinu og hjá heilsugæslunni,“ bendir hún á.

Að sögn Urðar eru einkenni kvíða hjá börnum oft mistúlkuð sem hegðunarvandi. „Til að greina á milli þarf að skoða ákveðin mynstur í hegðuninni. Þá þarf meðal annars að skoða hvort að barnið sýni merki um vanlíðan þegar það þarf að gera eitthvað nýtt eða í óvæntum aðstæðum. Það bendir til að um kvíða sé að ræða.“

Börnum með ADHD hættara við kvíða

Börn með hegðunarraskanir, sérstaklega ADHD, eru hins vegar í miklu meiri áhættu en önnur börn á því að fá kvíða. Það sýna bæði innlendar og erlendar rannsóknir. „Það er mikilvægt að átta sig á því að þegar börn glíma við hegðunarvanda þá fylgir því mjög mikil streita og álag sem skapar gjarnan kvíðaeinkenni. Með þessu þarf að fylgjast.“

Urður segir árangur af kvíðameðferðum góðan, sérstaklega ef vandinn uppgötvast snemma. „Börn geta sýnt kvíðaeinkenni á ákveðnum tímabilum, til dæmis þegar eitthvað kemur uppá. Þá er gott fyrir foreldra að vita að til eru leiðir til að takast á við það til að koma í veg fyrir að vandinn vaxi.“

Vantar faraldfræðilegar rannsóknir

Ekki er vitað með vissu hversu algengur kvíði hjá börnum og unglingum er hér á landi. Enn vantar faraldsfræðilegar rannsóknir til að sýna fram á það. Hins vegar má finna vísbendingar um þróun hans í gegnum árin í rannsóknum sem gerðar eru reglulega á líðan ungmenna. Þær benda til að fleiri ungmenni séu kvíðin en áður en óvíst er hvort aukningin sé vegna meiri og opnari umræðu og þar með viðurkenningar á sjúkdómnum eða vegna þess að fleiri séu kvíðnir nú en áður. „En hvort sem er þá eru þarna vísbendingar um útbreiðsluna og það kallar á það að við rannsökum þetta betur.“

Fyrirlestur Urðar var sá fyrsti í nýrri fyrirlestraröð sem Háskóli Íslands hleypir af stokkunum í ár og ber heitið Háskólinn og samfélagið. Viðfangsefni fyrirlestraraðarinnar verða af ýmsum toga en eiga það sameiginlegt að hafa verið áberandi í samfélagsumræðunni síðustu misseri. Í fyrstu fræðslufundaröðinni verður velferð barna og ungmenna í brennidepli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert