Verða ekki með varanlegt herlið

Bandarísk P-8 Poseidon kafbátaleitarflugvél.
Bandarísk P-8 Poseidon kafbátaleitarflugvél. Ljósmynd/Bandaríski sjóherinn

Þrátt fyrir að til standi að uppfæra aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli svo hægt verði að þjónusta kafbátaleitarflugvélar af gerðinni P-8 Poseidon vegna aukinnar áherslu á Norður-Atlantshafið eru engin áform af hálfu Bandaríkjahers að varanlegt herlið verði hér á landi.

Þetta kemur fram á fréttavefnum Stars and Stripes sem fjallar um málefni Bandaríkjahers. „Þrátt fyrir að Ísland sé sem fyrr öflugur bandamaður innan NATO hafa Bandaríkin engin áform um að koma aftur á fastri viðveru í landinu,“ er haft eftir Pamelu Rawe, sjóliðsforingja og talsmanni bandaríska sjóhersins.

Rawe segir að kafbátaleitarflugvélarnar verði þess í stað á Íslandi einungis annað slagið vegna þátttöku í aðgerðum eða æfingum en verði annars staðsettar í heimahöfn sinni í bandarísku herstöðinni í Sigonella á Ítalíu. Rawe segir ennfremur að verið sé að skipta út kafbátaleitarflugvélum af gerðinni P-3C Orion fyrir P-8.

Gert sé ráð fyrir að allajafna verði ein eða tvær kafbátaleitarflugvélar við eftirlit hér við land þegar slíkar vélar verði staðsettar á landinu í sjö til átta véla flugsveit. Allajafna vegna heræfinga og ekki samkvæmt ákveðinni tímaáætlun.

Fram kemur í fréttinni að sérfræðingar telji engu að síður að búast megi við auknu eftirliti með rússneskum kafbátum og öðrum herskipum í kringum Ísland. Landfræðileg staðsetning Íslands skipti miklu máli í því sambandi líkt og á árum áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert