Innbrotum í einbýlishús fjölgar

Garðabær í flugsýn. Einbýlishúsin eru áberandi á þessum slóðum.
Garðabær í flugsýn. Einbýlishúsin eru áberandi á þessum slóðum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Innbrotum í heimahús á höfuðborgarsvæðinu, einkum í Kópavogi og Garðabæ, hefur fjölgað töluvert frá miðjum desember og fram í janúar. Grunur leikur á að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða. Flest innbrotanna eiga það sameiginlegt að vera framin á daginn og skartgripum og peningum stolið en önnur verðmæti látin ósnert. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. 

Oftar en ekki virðast skartgripir og peningar á heimilum vera geymdir í svefnherbergjum og þangað hafa þjófarnir leitað. Þótt þjófavarnakerfi séu á mörgum heimilum virðist sem hreyfiskynjarar séu ekki staðsettir í eða við svefnherbergi og er það umhugsunarefni. Oftast er brotist inn í einbýlishús.

„Við erum að vinna upp úr þeim vísbendingum sem við erum með,“ segir Helgi Gunnarsson lögreglufulltrúi spurður um rannsókn málsins. Hann biðlar til fólks um að hafa samband við lögregluna ef það hefur orðið vart við torkennilegar mannaferðir.

„Betra að fá fleiri upplýsingar en færri“

„Við biðjum líka fólk sem er með öryggismyndavélar og hefur tekið eftir einhverju óvenjulegu við húsin sín án þess að brotist hafi verið inn að hafa samband,“ segir Helgi. Hann segir að slíkar upptökur þar sem mögulega einhver hafi kannað aðstæður en ekki farið inn gætu nýst vel við rannsókn málsins. „Það er alltaf betra að fá fleiri upplýsingar en færri,“ segir Helgi og bendir á að ekki er ósennilegt að sést hafi til þjófanna í einhverjum tilvikum og ítrekar að fólk láti lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir. 

Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða, hringja jafnvel dyrabjöllunni og þykjast vera að spyrja eftir einhverjum, og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga.

Lögreglan vill enn fremur minna á mikilvægi þess að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum, t.d. loki gluggum, þegar það fer að heiman og ekki er úr vegi að tilkynna nágrönnum um slíkt, en nágrannavarsla getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa innbrot eða koma í veg fyrir þau. Sérstaklega er minnt á að útiljós séu kveikt þar sem þau eru til staðar, hvort sem um ræðir baka til við hús eða að framanverðu. Slíkt einfaldar nágrönnum að sjá umferð/mannaferðir við húsin.

Upplýsingum má koma á framfæri í síma 444-1000, með einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu vegna yfirstandandi innbrots skal undantekningarlaust hringja í 112.

Lögreglan ítrekar við fólk að hafa augun opin fyrir mögulegum …
Lögreglan ítrekar við fólk að hafa augun opin fyrir mögulegum innbrotsþjófum. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert