Nálgunarbann fyrir svívirðingar

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Skapti

Konu hefur verið gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði gagnvart barnsföður sínum, en úrskurður héraðsdóms var staðfestur í Landsrétti í gær. Er henni bannað að koma nær heimili mannsins en 100 metra, nálgast hann á dvalarstað hans, elta eða nálgast á öðrum stöðum. Þá má hún ekki setja sig í samband við manninn eða hafa samskipti við hann á annan hátt gegn vilja hans.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms kemur fram að konan hafi árið 2016 sætt samskonar banni og af sömu ástæðum. Maðurinn og konan bjuggu áður saman og eiga eitt barn saman. Hringdi konan á sex mánaða tímabili 572 sinnum í manninn og sendi honum 1.277 smáskilaboð.

„Samkvæmt frásögn brotaþola og texta skilaboðanna einkennist samskiptin af áreitni og svívirðingum í garð brotaþola og unnustu hans og hafi engan annan tilgang en að skerða friðhelgi brotaþola,“ segir í úrskurðinum.

Hefur lögregla samkvæmt úrskurðinum ítrekað talað við konuna og reynt að fá hana til að bæta hegðun sína án árangurs. Þá var bent á að þrátt fyrir bannið sem sýslumaður lagði á hafi konan ekki látið af hegðun sinni.

Þá kemur einnig fram konan og maðurinn eigi í forsjárdeilu og vill konan að horft sé til þess varðandi ákvörðun yfirvalda.

Dómurinn telur hegðun konunnar röskun á friði mannsins og því rétt að úrskurða hana í nálgunarbann. „Fallist verður á það með sóknaraðila að texti skilaboða frá varnaraðila til brotaþola feli í fjölmörgum tilvikum í sér móðganir og svívirðingar í garð brotaþola og unnustu hans, þannig að ekki verði litið öðru vísi á en að í þeim felist röskun á friði brotaþola.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert