Lánin liður í nýrri starfskjarastefnu

Jóhannes Baldursson bar vitni um annan og þriðja kafla ákærunnar …
Jóhannes Baldursson bar vitni um annan og þriðja kafla ákærunnar laust fyrir hádegi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn vafi er í huga Jóhannesar Baldurssonar, eins ákærðra í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis, um að lán til hans sjálfs og þrettán annarra starfsmanna bankans hefðu verið liður í nýrri starfskjarastefnu stjórnar bankans.

Lán til Gnóma ehf., sem var í eigu Jóhannesar nam rúmum 793 milljónum króna og var nýtt til að kaupa yfir 46 milljónir hluta í bankanum.

Jóhannes var yfirheyrður sem vitni í þeim tveimur ákæruliðum sem beinast eingöngu að Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, nú laust fyrir hádegi.

Áður hafði hann gefið skýrslu um fyrsta lið ákærunnar, sem beinist Jóhannesi sjálfum, Lárusi og þremur fyrrverandi starfsmönnum deildar eigin viðskipta hjá Glitni.

Dómsformaður í málinu, Arngrímur Ísberg, brýndi fyrir Jóhannesi áður en vitnisburður hans hófst að þar sem hann væri ákærður í öðrum liðum málsins mætti hann sleppa því að svara spurningum, ef möguleiki væri á að svörin kynnu að gefa grunsemdir um sekt hans.

Jóhannes spurði þá héraðsdómarann hvort honum þætti ákæruliðirnir „ekki vera neitt tengdir,“ en Arngrímur svaraði því til að þeim slægi ekkert saman í dómnum, þar sem Jóhannes væri ákærður í fyrsta kafla ákærunnar en einungis Lárus Welding í öðrum og þriðja kafla.

Þorsteinn Már gagnrýninn á kauprétti

Björn Þorvaldsson saksóknari spurði Jóhannes hvernig á því stæði að ekki hefðu verið gerðir hefðbundnir kaupréttarsamningar við starfsmenn bankans, í stað þeirra útlána til hlutabréfakaupa sem málið fjallar um.

Jóhannes sagðist ekki vita það, en minntist þó á að Þorsteinn Már Baldvinsson, nýr stjórnarformaður Glitnis, hefði verið gagnrýninn á kaupréttarsamninga á þessum tíma.

Saksóknari spurði þá hvort útlánin hefðu verið leið til þess að komast í kringum það að gera hefðbundna kaupréttarsamninga.

„Hann myndi þurfa að svara fyrir það, ég man bara að hann gagnrýndi kauprétti,“ sagði Jóhannes og vísaði til Þorsteins Más.

Allir vildu meira

Að sögn Jóhannesar fóru ekki fram samningaviðræður um það hversu mikið fé einstakir starfsmenn fengu til hlutabréfakaupa. Sú ákvörðun hefði líklega verið tekin af yfirstjórn bankans. Einhverjar línur hafi verið dregnar um það fyrir ofan Jóhannes í skipuriti bankans.

„Hvort sem það var Lárus eða Lárus og stjórnin,“ sagði Jóhannes. Allavega eitthvað fyrir ofan hann sjálfan.

Sjálfur sagði Jóhannes að hann hefði viljað fá hærra lán til kaupa á hlutabréfum bankans og telur að það hafi einnig gilt um aðra starfsmenn.

Hann sagðist hafa horft upp á miklar breytingar í yfirstjórn bankans á sínum starfsferli, séð starfsmenn koma inn og fengið „alls konar starfskjör,“ jafnvel fyrir skamman tíma í starfi og „hagnast verulega á því.“

Project bókaklúbbur

Lánveitingarnar til einkahlutafélaganna í eigu starfsmanna Glitnis fóru fram 15. og 16. maí árið 2008. Þann 15. maí barst Jóhannesi tölvupóstur frá Elmari Svavarssyni, starfsmanni verðbréfamiðlunar.

Þar sagðist Elmar vera „kominn á flug í project bókaklúbbi“ og að hann myndi „brífa“ Jóhannes nánar morguninn eftir.

Saksóknari spurði hvort þarna hefði verið vísað til lánveitinganna, en það sagðist Jóhannes ekki muna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert