Vilja yfirmat á verðmæti Geysissvæðis

Fjöldi ferðamanna heimsækir Geysissvæðið á ári hverju.
Fjöldi ferðamanna heimsækir Geysissvæðið á ári hverju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkissjóður hefur farið fram á að unnið verði yfirmat á verðmæti lands á Geysissvæðinu sem ríkið keypti af sameigendum sínum í október 2016, en matið verður bindandi fyrir báða aðila kaupsamningsins.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is en málið var rætt á ríkisstjórnarfundi morgun.

Forsaga málsins er að 7. október árið 2016 keypti ríkið eignarhlut sameigenda sinna á Geysissvæðinu. Svæðið sem var keypt umlykur séreignarland ríkisins innan girðingar þar sem hverirnir Geysir og Strokkur eru. Eignarhlutur ríkisins í sameignarlandinu fyrir kaupin var 25,28% en sameigenda 74,72%.

Þar sem ekki náðist samkomulag um verðmæti hins keypta eignarhluta var ákveðið að dómkvöddum matsmönnum yrði falið að úrskurða um kaupverð sameignarlandsins. Málsmeðferð fyrir matsmönnum var með svipuðum hætti og fyrir matsnefnd eignarnámsbóta þar sem lögmönnum beggja aðila gafst færi á að skila greinargerðum um málið ásamt öðrum gögnum auk þess sem málið var flutt af lögmönnum beggja aðila fyrir matsnefndinni.

Dómkvöddu matsmennirnir skiluðu matsgerð sinni 1. desember síðastliðinn. Í niðurstöðu sinni lögðu þeir til grundvallar að ekki væri annað fært en að miða verðmæti landsins út frá því að hægt yrði að innheimta aðgangseyri að svæðinu. Markaðsverð landsins er því fundið út frá þeim forsendum, að því er kemur fram í svarinu.

Metið á 1.113 milljónir króna

Miðað við forsendurnar sem matsmenn gáfu sér er kaupverð spildunnar að frádregnum hlut ríkissjóðs í sameignarspildunni metið á 1.113 milljónir króna sem væri sú fjárhæð sem greiða þyrfti sameigendum samkvæmt kaupsamningi.

Með hliðsjón af niðurstöðu verðmatsins var það mat ríkisins að ekki væri annað forsvaranlegt í stöðunni en að óska eftir fimm manna yfirmati á verðmæti landsins sem báðum samningsaðilum er heimilt að gera. Niðurstaða yfirmatsins verður bindandi fyrir báða aðila kaupsamningsins um endanlegt kaupverð eignarhlutans.

Reiknað er með því að niðurstaða yfirmats liggi fyrir síðar á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert