Telur að hann eigi að fara út úr fjölmiðlum

Eyþór Arnalds.
Eyþór Arnalds. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Eyþór Arnalds, sem sækist eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segist telja rétt að hann losi sig út úr fjölmiðlarekstri ef hann verður kjörinn borgarfulltrúi. Þetta kom fram í máli hans í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í morgun. 

Eyþór er í dag stærsti einstaki hluthafi í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins og mbl.is, með alls um yfir 20 prósenta hlut. Eyþór var spurður út í eignarhluti sína í félögum af Kristjáni Kristjánssyni, umsjónarmanni þáttarins. Kristján sagði við Eyþór að hann geti vart verið beggja vegna borðsins verði hann oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni og sagðist Eyþór vera honum þar sammála. 

„Ég þarf að stíga úr verkefnum og þess vegna var þetta dálítið stór ákvörðun fyrir mig að fara í þetta. Ef ég tapa á laugardaginn þá er ég frjáls en ef ég vinn þá þarf ég að gera greinarmun á þessu tvennu,“ sagði Eyþór í þættinum. Spurður um hvort hann færi úr öllum stjórnum svaraði Eyþór því til að hann færi úr því sem ekki á við. 

Þegar hann var spurður af öðrum þátttakendum í umræðum á Sprengisandi í morgun, þeim Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, og Guðlaugu Kristjánsdóttur, bæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði, hvort hægt væri að sjá hagsmunaskráningu hans einhvers staðar þá mælti hann með því að fólk skoðaði Stundina þar væri besta yfirlitið yfir eignarhluti hans. 

„Stundin hringdi í mig og ég veit að það eru margir sjálfstæðismenn sem svara ekki Stundinni en ég ákvað bara að svara þeim og þetta er tveggja blaðsíðna viðtal sem var tekið og prentað nákvæmlega allt sem ég sagði. Svo fóru þeir yfir þessi 26 fyrirtæki og þetta er allt prentað í Stundinni. Ég var að spá í að kaupa þúsund eintök og hafa á kosningaskrifstofunni,“ sagði Eyþór í þættinum Sprengisandi og bætti við að hann hafi verið mjög ánægður með að Stundin hafi hringt í hann.

Kristján spurði Eyþór hvort það væri ekki ljóst að hann myndi selja hlut sinn í Morgunblaðinu. Eyþór sagðist benda á það að einhverjir á þingi ættu í fjölmiðlum. Hann ætli að fara úr öllu sem rækist á.

„Nú er ég ekki orðinn frambjóðandi, hvað þá kjörinn fulltrúi. Ég er búinn að svara öllum. Það eru engar beinagrindur úti í skápnum. Þetta er bara á borðinu,“ sagði Eyþór.

Kristján bað hann um að svara því afdráttarlaust hvort hann myndi losa sig undan eignarhaldi í fjölmiðli ef hann yrði borgarfulltrúi. „Ég er þeirrar skoðunar að ég eigi að fara úr því,“ sagði Eyþór og bætti við „ég er prinsippmaður“. 

Hann tók það fram í þættinum að það væri of snemmt að segja til um stjórnarsetu í ákveðnum félögum og eignarhluti enda ekki ljóst hvort hann verður borgarfulltrúi. Helga Vala tók undir þetta með Eyþóri enda vart hægt að gera kröfu um það þegar menn gefi kost á sér að þeir þurfi þá að fara strax út úr þeim félögum sem þeir eigi hlut í.

Sjálfstæðisflokkurinn velur sér oddvita næsta laugardag. Fimm gefa kost á sér til að leiða lista flokksins í komandi kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert