Minnst matarsóun hjá yfir 60 ára

Margir muna ekki hvað þeir eiga heima þegar þeir fara …
Margir muna ekki hvað þeir eiga heima þegar þeir fara út í búð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Um 75% þeirra sem tóku þátt í könnun Umhverfisstofnunar síðasta haust á viðhorfi Íslendinga til matarsóunar reyna að lágmarka matar- og drykkjarsóun. Hlutfallið er mjög svipað og mældist í sambærilegri könnun sem var framkvæmd haustið 2015.

Í niðurstöðum nýju könnunarinnar kemur fram að algengast var að fólk henti einhverju einu til fjórum sinnum í viku og var hlutfallið álíka mikið og í síðustu könnun, samkvæmt tilkynningu Umhverfisstofnunar.

Almenn sóun var minnst hjá þeim sem voru yfir 60 ára en talsvert meiri hjá aldurshópnum 18 til 29 ára.

Einnig var tíðast sóað hjá fólki með hæstar fjölskyldutekjur, eða 1,2 milljónir eða meira á mánuði.

Útrunninn matur algengasta ástæðan

Algengasta ástæðan fyrir matarsóun var sú að maturinn væri útrunninn, eða í rúmum 67 prósentum tilfella. Næstalgengasta ástæðan var að maturinn væri skemmdur eða að gæði hans væru ekki næg, í rúmlega 53 prósentum tilfella.

Þriðja veigamesta ástæðan var að of mikill matur hafi verið gerður eða að skammturinn hafi verið of stór.

Í niðurstöðunum kom einnig fram að yngsti aldurshópurinn, 18 til 29 ára, sóaði mun meira útrunnum mat en elsti aldurshópurinn, 60 ára og eldri.

Þegar metið var hvaða hindranir stæðu helst í vegi fyrir fólki að minnka matarsóun var algengast að fólki fyndist erfitt að áætla rétt hversu mikið þyrfti að kaupa eða elda.

Önnur algengasta ástæðan var að fólk myndi ekki hvað það ætti heima þegar það færi út í búð og gleymdi að ljúka afgöngum.

„Báðar þessar hindranir má tækla með betri skipulagningu við innkaup ásamt því að nota svokallaða skammtareiknivél sem finnst á fræðsluvefnum matarsóun.is,“ segir í tilkynningunni.

Einnig var spurt hvað hvetti fólk til að minnka magn þess sem fer til spillis. Þar stóð hæst að fólk væri mótfallið hvers kyns sóun, fengi samviskubit þegar það henti mat og kysi að verslanir seldu með afslætti matvöru og drykki sem væru að renna út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert