Ofrukkuð vegna mistaka posafyrirtækis

Flugeldar á lofti.
Flugeldar á lofti. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var því haldið fram að mistök hjá Valitor hefðu orsakað ofrukkanir vegna flugeldakaupa en það er rangt og hefur nú verið leiðrétt.

Greiðslur víxluðust við innheimtu flugeldasölu tveggja björgunarsveita í kringum þrettándasölurnar. Björgunarsveitirnar tvær heita báðar Dagrenning. Önnur er á Hvolsvelli og hin er á Hólmavík en þær eru með hvor sína kennitöluna.

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var því haldið fram að mistök hefðu átt sér stað hjá Valitor en það reyndist rangt. Hið rétta er að Verifone hefði gert mistök við uppsetningu posa sem varð til þess að tímabundin ofrukkun myndaðist hjá korthöfum sem höfðu verslað við aðra björgunarsveitina.

Stór hópur varð fyrir því að færslur víxluðust, auk þess sem einhverjir færslubunkar voru keyrðir tvisvar í gegn og því var fólk rukkað tvisvar fyrir vöru sem það hafði þegar greitt fyrir. Þetta segir Kristján Kristjánsson en fatlaður sonur hans varð fyrir því að vera rukkaður um mun hærri upphæð en hann keypti fyrir. 

19. janúar er sonur hans ofrukkaður með færslu á debetkorti sínu. Hann fer yfir á kortinu sínu og er því einnig gert að greiða vexti vegna úttektar án heimildar. Kristján bendir strax á þetta og krefst svara. Í bankanum er honum bent á að leita til Valitor þar sem var talið að upptök mistakanna hefðu átt sér stað. Hið rétta er þó að mistökin áttu sér stað hjá Verifone en ekki Valitor.

Viku síðar er enn ekki búið að leiðrétta mistökin og Kristján hefur því samband við Valitor. „Mér er bent á endurkröfudeild en fæ ekki samband við neinn þar því sonur minn átti í hlut, ég yrði að fara í gegnum Landsbankann og fleira í þeim dúr. Ég sagði við þá að ég myndi kæra þá fyrir þjófnað til lögreglu,“ segir Kristján. Hann stóð við það og sendi Fjármálaeftirlitinu ábendingu um að starfsháttum Valitor væri ábótavant, en við eftirgrennslan mbl.is kom í ljós að ekki væri við Valitor að sakast vegna málsins heldur Verifone. Þar að auki annaðist Kortaþjónustan endurgreiðsluna en ekki Valitor.

Eftir þessar athugasemdir Kristjáns komst málið á skrið og drengurinn fékk endurgreitt. Hins vegar er hann ekki enn búinn að fá vextina endurgreidda og málinu er ekki lokið. 

„Hvar er ábyrgðin?“

„Þetta er með ólíkindum. Þetta bendir til þess að vinnuferlar séu ekki í lagi og botnlaust kæruleysi er í gangi. Það sem er alvarlegast í þessu er að ef það er til dæmis þurrkað út af reikningi fólks, t.d. öryrkja sem á ekki meiri pening, og það ætlar að kaupa í matinn en getur það ekki vegna þess að það líða einhverjir dagar þangað til það fær endurgreitt því að kortafyrirtækið er eitthvað að júllast úti í bæ. Hvar er ábyrgðin?“ segir Kristján og spyr jafnframt hvert slíkir einstaklingar eigi að snúa sér.

Í þessu samhengi bendir hann á að slík fyrirtæki séu mætt um leið og þau sjálf eiga eitthvað útistandandi en allt öðru máli gegni ef þau sjálf geri mistök og það þurfi að leiðrétta þau, þá líði einhverjir dagar.

Hann furðar sig einnig á því að þeir sem hafi greitt með kreditkorti hafi fengið fyrr endurgreitt en þeir sem notuðu debetkort og notuðu pening sem þeir áttu með réttu sjálfir.   

Valitor sendi frá sér athugasemd í morgun vegna fréttaflutnings mbl.is af málinu. Ekki var haft samband við Valitor vegna málsins og var fyrirtækið haft fyrir rangri sök, á því er beðist afsökunar. Tilkynning Valitor í heild:

Valitor haft fyrir rangri sök

Valitor andmælir harðlega frétt á mbl.is 28. jan. undir yfirskriftinni „ Bend­ir á þjófnað korta­fyr­ir­tæk­is.“ Þar er fyrirtækið ranglega bendlað við mistök varðandi innheimtu flugeldasölu tveggja björgunarsveita sem báðar heita Dagrenning. Hið rétta er að það var Kortaþjónustan en ekki Valitor sem leigði þessum björgunarsveitum posa.

Vegna fyrrgreindra mistaka Kortaþjónustunnar varð einstaklingur því miður fyrir því að vera rukkaður um mun hærri upphæð en hann keypti fyrir.  Þar sem um var að ræða Visa kort frá Landsbankanum, annaðist Valitor milligöngu milli korthafa og Kortaþjónustunnar við endurkröfu þessarar færslu og fylgdi réttum verkferlum í einu og öllu.

Valitor harmar þau vinnubrögð mbl.is að hafa ekki haft samband við Valitor vegna vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert