Ásta áfram í Árborg

Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri í Árborg.
Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri í Árborg. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri í Árborg og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, gefur kost á sér til áframhaldandi starfa í bæjarmálum þar. Á fundi sjálfstæðisfélagsins í Árborg í kvöld var ákveðið með 73% greiddra atkvæða að uppstillingarnefnd raðaði á lista flokksins í sveitarfélaginu fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor.

Í síðustu bæjarstjórnarkosningum skipaði Ásta Stefánsdóttir fimmta sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Árborg og náði kjöri – og þar með fékk flokkurinn hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Aðrir bæjarfulltrúar flokksins eru Gunnar Egilsson, Ari Björn Thorarensen, Kjartan Björnsson, sem allir gefa kost á sér áfram, og Sandra Dís Hafþórsdóttir en hún stígur til hliðar. 

Ásta Stefánsdóttir var kjörtímabilið 2010 til 2014 framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar og þá starfandi ópólitískt – en sté svo inn á svið stjórnmálanna fyrir fjórum árum og heldur áfram þannig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert