Fer að skána um hádegi

Veðrið á sjötta tímanum í morgun.
Veðrið á sjötta tímanum í morgun. Veðurstofa Íslands

Vonskuveður er víða á landinu og fjölmargar leiðir lokaðar. Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að veðrið fari að skána um hádegi en versni aftur síðar í dag. Mjög hvasst hefur verið á Vesturlandi og Norðurlandi vestra síðustu tímana.

Veðurstofan vekur athygli á viðvörunum vegna veðurs, en nú stendur yfir suðaustanstormur eða -rok með slyddu og rigningu á láglendi, en snjókomu og skafrenningi á heiðum. Samgöngutruflanir eru líklegar víða um land. Vatnselgur gæti valdið skaða ef ekki er hreinsað frá niðurföllum og fólki er bent á að festa lausa muni sem gætu fokið.
Birta segir að veðrið verði mjög slæmt á Suðvestur-, Vestur- og Norðurlandi vestra fram undir hádegi en þá skánar veðrið hratt. 

Innlandsflug í athugun

Í nótt hefur verið mjög hvasst á Keflavíkurflugvelli en svo virðist sem millilandaflug gangi samkvæmt áætlun. Mjög fer að draga úr veðri á Reykjanesinu og Snæfellsnesinu um tíuleytið. Innlandsflug er á athugun klukkan 9:15 hjá Flugfélagi Íslands og hjá flugfélaginu Erni er innanlandsflug á athugun nú í morgunsárið.

Dælubílar slökkviliðsins eru að störfum vegna vatnsleka á tveimur stöðum en varðstjóri í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins á von á því að útköllum eigi eftir að fjölga þegar fólk fer á fætur enda veðrið búið að vera mjög slæmt í alla nótt, mikil úrkoma og rok. 

Fólk er beðið um að fara varlega enda hálkublettir á gangstígum og bílastæðum á höfuðborgarsvæðinu, einkum í efri byggðum.

Bræla á er miðunum kringum landið og engir bátar á sjó og stærri skip í vari, samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð siglinga.

Eitthvað var um fok á lausamunum á Rifi og í Ólafsvík í nótt en annars hefur lítið tjón verið vegna óveðursins sem gengur yfir landið.

Mjög vont veður er í Húnavatnssýslum og á Tröllaskaga en heldur að draga úr á landinu vestanverðu, segir Birta. 

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum, Ströndum og á Norðurlandi vestra. Gul viðvörun er á öðrum stöðum á landinu.

Vegir lokaðir víða 

Vegurinn um Hellisheiði er lokaður og það sama gildir um Þrengsli, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði, Holtavörðuheiði, Öxnadalsheiði og Fróðárheiði. Óveður er á Reykjanesbraut og undir Hafnarfjalli samkvæmt kortum á vef Vegagerðarinnar en þeir vegir eru opnir. Hið sama gildir um Vatnsskarð.

Samkvæmt upplýsingum frá Strætó fer leið 51 sem fór frá Selfossi klukkan 6:20 aðeins í Hveragerði enda leiðin yfir Hellisheiði og Þrengsli lokuð. Hið sama á við um vagninn sem á að fara klukkan 7:20 frá Selfossi.

BSÍ kl. 06:55, Mjódd kl. 07:10 að Hveragerði kl. 07:47 fellur niður, ekið frá Hveragerði kl. 07:47 á Selfoss. Hella – Hvolsvöllur fellur niður. Mjódd kl. 08:00 fellur niður. 

Leið 57

Vegna veðurs falla niður eftirfarandi ferðir: 

Akranes kl. 06:20 í Mjódd 
Borgarnes kl. 06:52 í Mjódd 
Akranes kl. 08:30 í Mjódd 

Mjódd kl. 07:25 að Akranesi (BSÍ kl.07:05) 
Mjódd kl. 07:45 að Borgarnesi 
Mjódd kl. 09:00 

Næsta tilkynning kl. 09:30 

Leið 58

Vegna veðurs falla niður morgunferðir á leið 58, 
frá Stykkishólmi kl. 07:47 að Borgarnesi 
frá Borgarnesi kl. 09:15 í Stykkishólm 

Veðurspáin fyrir næstu daga

Suðaustan 18-25 m/s V-til og gengur einnig í sunnanhvassviðri eða -storm A-lands með morgninum. Slydda eða rigning á láglendi, en úrkomulítið NA-til. Hiti 2 til 7 stig.
Snýst í allhvassa suðvestlæga átt með slydduéljum um V-vert landið laust fyrir hádegi, en áfram sunnanhvassviðri eða -stormur A-til fram eftir degi og rigning SA-lands. Kólnar í veðri.
Suðvestan 8-15 m/s og él í kvöld og á morgun, en léttskýjað á A-verðu landinu. Hiti um og undir frostmarki.

Á laugardag:

Suðvestan 8-15 m/s og él, en léttskýjað á A-verðu landinu. Frost 0 til 5 stig inn til landsins en hiti um og yfir frostmarki víða við ströndina. 

Á sunnudag:
Gengur í sunnan 20-25 m/s og víða mikil rigning, einkum á V-verðu landinu, en úrkomulítið NA-til. Hiti 5 til 10 stig, hlýjast nyrst. Suðvestanhvassviðri V-lands um kvöldið með slyddu og kólnar aftur. 

Á mánudag:
Suðvestan 10-18 m/s og éljahryðjur á V-verðu landinu, en heldur hægari A-til og léttskýjað. Harðnandi frost. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir vestlæga átt og stöku él V-lands í fyrstu, annars víða bjart. Vaxandi suðlæg átt um kvöldið. Áfram talsvert frost, allt að 15 stig í innsveitum NA-til. 

Á miðvikudag:
Hvöss sunnanátt með rigningu eða slyddu, en snýst í suðvestanátt með éljum og kólnar þegar líður á daginn. 

Á fimmtudag:
Áframhaldandi suðvestanátt með éljum um landið V-vert, en bjart eystra og kólnar enn frekar í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert