Tvítugur fréttavefur

Fréttavefurinn mbl.is fór fyrst í loftið 2. febrúar 1998.
Fréttavefurinn mbl.is fór fyrst í loftið 2. febrúar 1998. Mynd/mbl.is

Í dag eru 20 ár frá því að fréttavefnum mbl.is var hleypt af stokkunum. Frá upphafi hefur hann átt þeirri velgengni að fagna að vera mest sótti fréttavefur landsins.

Heimsóknir á mbl.is voru sjö þúsund fyrsta sólarhringinn, en í síðustu viku voru daglegir innlendir gestir mbl.is að meðaltali ríflega 212.000. Á þeim 20 árum sem liðin eru síðan fréttavefurinn mbl.is hóf göngu sína hafa verið birtar þar um 980 þúsund fréttir. Í fyrra voru fréttir að meðaltali um 153 á dag.

Fyrstu árin ólst mbl.is upp í skjóli systurmiðilsins Morgunblaðsins. Vefurinn var þá kallaður Fréttavefur Morgunblaðsins og naut þess trausts og sterku innviða sem byggðir höfðu verið um Morgunblaðið.

Frá upphafi starfaði þó sérstök fréttadeild á mbl.is og þessi nýi miðill ruddi nýjar brautir í hinu rótgróna útgáfufélagi. Nú eru blaðið og vefurinn tvær aðskildar einingar þótt vissulega sé áfram gott og náið samstarf með miðlunum.

Ritstjórn mbl.is þakkar lesendum fyrir traustið og fagnar deginum með því að halda áfram að bjóða upp á nýjustu fréttir og annað áhugavert efni. Þá er vert að geta þess að í tilefni tímamótanna hafa verið gerðar breytingar á útliti vefsins, þá sérstaklega varðandi viðmótið en markmiðið er að gera mbl.is enn aðgengilegri fyrir lesendur.

Afmælisvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert