Ábyrgðin þeirra sem deila myndinni

Þegar myndefni sem sýna börn á kynferðislegan hátt og er …
Þegar myndefni sem sýna börn á kynferðislegan hátt og er dreift á netinu er um stafrænt kynferðisofbeldi að ræða. AFP

„Það þarf ekkert að vera athugavert við að unglingar sem hafa náð 15 ára aldri taki af sér nektarmynd og deili með sínum nánasta en um leið og þeir hafa deilt myndinni með einhverjum hafa þeir misst stjórn á henni. Ábyrgðin er samt alltaf þeirra sem deila myndinni áfram,“ segir Þóra Jónsdóttir, lögfræðingur og verkefnastjóri hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, um „sexting“ í tilefni Alþjóðlega netöryggisdagsins í dag.

Þóra bendir á að þegar myndum sem sýna börn á kynferðislegan hátt og er dreift á netinu er um stafrænt kynferðisofbeldi að ræða. Það getur til dæmis átt sér stað eftir „sexting“ og stundum er það kallað hrelliklám. Stundum er það með ásetningi um að beita yngri börn ofbeldi og dreifa því og selja. Framleiðsla, skoðun, öflun og dreifing á slíkum myndum er refsiverð samkvæmt hegningarlögum.  

Skömmin ekki þeirra sem taka af sér myndir

„Við viljum samt vekja athygli á því að það eitt og sér að ákveða að taka mynd af sér ætti ekki að vera feimnismál eða skömm. Þeir sem gera slíkt ættu ekki að vera dæmdir fyrir það,“ segir Þóra og ítrekar að sá sem ákveður að deila áfram mynd brýtur gegn barni í hvert einasta sinn.

„Það þarf að vekja athygli á því að þetta er yfirleitt barn sem er lifandi og með réttindi sem á að sjálfsögðu að virða. Það þarf að vekja unglinga og ungt fólk til meðvitundar um ábyrgð þeirra á því að taka þátt í því að dreifa þessu. Það er nefnilega skaðlegt að þekkja ekki afleiðingarnar á því að dreifa slíku myndefni,“ segir Þóra.  

Fræðandi mynd um „sexting“

Í þessu samhengi bendir hún á að góða fræðslumynd, Myndin af mér, sem kom út á dögunum eftir þær Bryn­hild­i Björns­dótt­ur og Þór­dísi Elvu Þor­valds­dótt­ur. Hún fjall­ar um kyn­ferðisof­beldi sem þrífst í net­heim­um, meðal ann­ars þegar nekt­ar­mynd­ir, sem send­ar eru í trúnaði, fara á flakk. Í þessari leiknu íslensku mynd er að finna ákveðna lausn á vandamálinu sem skapast, að sögn Þóru sem vill þó ekki gefa of mikið upp um efni myndarinnar og hvetur alla til að sjá hana.

Þóra Jónsdóttir, lögfræðingur og verkefnastjóri hjá Barnaheillum.
Þóra Jónsdóttir, lögfræðingur og verkefnastjóri hjá Barnaheillum. Ljósmynd/Aðsend

Sköpum, tengjum og deilum virðingu

Slagorð Alþjóðlega netöryggisdagsins í ár er: Sköpum, tengjum og deilum virðingu: betra net byrjar hjá þér! Í tilefni dagsins mun SAFT opna nýja heimasíðu og senda nýtt kennsluefni á leik, grunn- og framhaldsskóla landsins ásamt heilræðum og leiðbeinandi efni til foreldra.

Eitt af þessu er nýtt viðmið um umfjöllun um börn á samfélagsmiðlum sem er beint til foreldra, forráðamanna og þeirra sem vinna með börnum. Í þeim eru til dæmis leiðbeiningar um mannréttindi barna á netinu, friðhelgi og persónufrelsi þeirra. „Foreldrar verða til dæmis að vita að þær myndir og umfjallanir um börn sem eru birt á netinu getur haft óþægilegar og  skaðlegar afleiðingar fyrir þau í nútíð eða framtíð,“ segir Þóra. 

Foreldrar fái leyfi barna sinna fyrir myndbirtingu á netinu

Hún bendir á að foreldrar verði að muna að spyrja börn sín um leyfi áður en þeir birta myndir af þeim á samfélagsmiðlum. „Börnin hafa auðvitað sjálf rétt á að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða þau sjálf. Þau eiga rétt á að skapa sér sjálf sína sjálfsmynd og hvernig þau birtast út á við,“ segir Þóra og bætir við: „Það fer ekkert af netinu sem birtist þar einu sinni.“

Hún ítrekar mikilvægi þess að skapa barnvænt umhverfi á netinu og þessi dagur er stór þáttur í því að vekja athygli á því. 

Á samfélagsmiðlum hafa margir birt myndir í tilefni dagsins undir merkjum: #SAFT og #SID2018. Sjá nánar heimasíðu SAFT. 

Ábyrgðin liggur alltaf hjá þeim sem deila myndum áfram.
Ábyrgðin liggur alltaf hjá þeim sem deila myndum áfram. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert