Fóru rúmar 70 milljónir fram úr áætlun

Frá Vatnajökulsþjóðgarði.
Frá Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Launaliður stofnunarinnar fer fram úr áætlun eins og hún var gerð í upphafi en á því eru þrjár meginskýringar.“ Þetta segir Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, þegar hann er spurður um úttekt eftir að við blasti töluverð framúrkeyrsla frá samþykkti rekstraráætlun í fyrra.

Þórður segir að þessar þrjár ástæður hafi allar verið eitthvað sem ekki hafi verið gert ráð fyrir við gerð áætlunar fyrir árið 2017. Fyrst nefnir hann dóm sem féll í hæstarétti um fjarvistaruppbót starfsmanna sem starfa í óbyggðum. „Við það féllu um 15 milljónir króna aukalega á okkur,“ segir Þórður.

Auk þess hafi þjóðgarðurinn ekki gert ráð fyrir útgjöldum sem fylgdu því að taka yfir jörðina Fell og þar með Jökulsárlón. „Það sem við þurftum að borga með því til að reka svæðið voru 17 milljónir króna aukalega,“ segir Þórður.

Hann bendir einnig á að ferðamannastraumur og álag hafi aukið útgjöld þjóðgarðs en landvarsla var meiri á öllum svæðum garðsins en gert hafði verið ráð fyrir. „Þá var líka gerður nýr stofnanasamningur um laun landvarða en samtals fór um 40 milljónir umfram áætlun í þennan lið,“ segir Þórður.

„Þetta eru rúmar 70 milljónir sem fara fram úr áætlun sem við gerðum fyrir árið 2017,“ segir Þórður en þjóðgarðurinn fékk 671 milljón frá ríkinu í fyrra.

Hefði mátt fara betur yfir málin

Ármann Höskuldsson, stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs, lagði fram bókun fyrir hönd stjórnar á fundi 22. janúar. Þar kom fram að stjórnin harmaði á framkvæmdastjóri hefði ekki sinn upplýsingaskyldu sinni. 

„Sumt af þessu sáum við ekki fyrr en undir lok árs,“ segir Þórður þegar hann er spurður hvort hann hafi ekki sinnt upplýsingaskyldunni. Hann segir að dómur Hæstaréttar hafi komið til útborgunar mjög seint á árinu.

„Það hefði samt örugglega mátt fara betur yfir þetta með stjórninni. Það var vitað að við værum mögulega að fara yfir einhver mörk en heildin birtist ekki almennilega fyrr en undir lok ársins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert