Tekist á um skólp og opna fundi

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tillögu Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að haf­inn verði und­ir­bún­ing­ur að því að hefja út­send­ing­ar frá nefnd­um og ráðum borg­ar­inn­ar var vísað frá með tíu atkvæðum gegn fjórum á borgarstjórnarfundi í dag. Einn borgarfulltrúi sat hjá.

Marta og Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og forseti borgarstjórnar, tókust nokkuð harkalega á um tillöguna en Líf skildi ekki hvers vegna verið væri að leggja hana fram núna. Líf benti á að Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefði lagt fram svipaða tillögu fyrir þremur árum og heimilt er að sýna frá fundum, sé þess óskað. 

Marta fjallaði um mengað vatn og óhreinsað skolp í ræðu sinni en hún sagðist telja að með beinum útsendingum frá öllum fundum væri betur hægt að fylgjast með öllu ákvörðunarferli. „Þessi mál eru skýrt dæmi um að almenningar fær takmarkaðar upplýsingar um það sem gerist í borginni,“ sagði Marta.

Líf Magneudóttir forseti borgarstjórnar.
Líf Magneudóttir forseti borgarstjórnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líf sagðist ekki skilja hvers vegna Marta væri að rugla saman óskyldum málum. „Mengun í vatni, skólp í sjó, bíddu hvernig hefði þessi tillaga, hefði hún verið samþykkt, getað komið í veg fyrir það?“ spurði Líf. Hún sagði samantekt Mörtu undarlega.

Marta sagði að borgarbúar hefðu haft gott af því að hlusta á umræðu um skólpmálin í stjórn Orkuveitunnar. „Þá hefðu þeir vitað hversu mikið fór úrskeiðis og hversu mikill vilji er til að breyta því.“

Líf sagði að málið væri einfalt; ráð og nefndir gætu haldið opna fundi ef þau óska þess. „Marta gæti tekið á það ráð, í öllum ráðum og nefndum, að biðja um að fundurinn sé opinn,“ sagði Líf og bætti við að í raun væri búið að samþykkja þess tillögu áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert