Útlit fyrir blindu og krapa

Veðurútlit á miðnætti.
Veðurútlit á miðnætti.

Skil nálgast nú landið úr suðvestri og má búast við að skyggni geti verið slæmt framan af nóttu. Úrkomusvæði með dálitlum hlýindum ganga yfir landið í nótt og í fyrramálið og mun hlána um tíma að því er segir á vef Veðurstofunnar, einkum á láglendi. Það frystir síðan aftur í hvassri suðvestanátt með éljum sunnan og vestantil á landinu á morgun.

„Háskýin frá skilunum eru þegar komin inn á land og eru farin að sjást ágætlega á radarnum vestan af Reykjanesi,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á vakt. Smám saman sé að bæta í vind suðvestan- og vestanlands og skilin muni koma inn á landið á næstu klukkutímum.

Skyggni getur þá verið slæmt framan af nóttu, á meðan enn er nægjanlega kalt og verður ofankoman þá í formi snjókomu eða slyddu. „Það er nokkuð af lausasnjó sem getur hæglega farið af stað áður en það blotnar nægjanlega mikið í honum. Það getur því orðið býsna blint þegar líður á kvöldið og fram eftir nóttu,“ segir hann.

Sterkar hviður geta þá komið undir Eyjafjöllum, við Hafnarfjallið og á Kjalarnesinu og getur vindurinn náð allt að 35 m/s í verstu hviðunum.

Kann að vera leiðindakrapi á vegum í fyrramálið

Er líður á nóttina kemur hlýrra loft inn og kann ofankoman þá að breytast í rigningu á láglendi. „Þá verður ágætisskyggni, en blotnar í snjónum með tilheyrandi krapa og leiðindum.“ Lítil umferð sé ennfremur yfir blánóttina og fyrir vikið keyrist snjórinn illa niður. „Það getur verið leiðindakrapi á vegum í fyrramálið,“ segir Óli Þór og bætir við: „en ef þeir eru jafn duglegir að moka og þeir voru í nótt að þá hef ég enga sérstakar áhyggjur.“ Ekki þurfi þó nema einn eða tvo illa búna bíla til að hægja verulega á umferð.

Skilin verið farin yfir á suðvesturhorninu á milli klukkan 5 og 7 í fyrramálið og við tekur töluvert hægari suðvestan átt. „Síðan fara élin að sigla inn í kjölfarið strax í fyrramálið og þegar þau eru komin, þá verða þau hér alveg fram á föstudag,“ segir Óli Þór og kveður suðvestanátt með éljum verða ríkjandi þangað til.

Skilin munu fara yfir landið allt og má búast við úrkomu um miðja nótt norðan og norðaustanlands. Fljótlega eftir hádegi verða þau svo komin á Austurlandið. „Þá léttir til aftur á Norðaustur- og Austurlandi.“

Veðurvefur mbl.is

Færð og aðstæður á vegum

Reykjanesbraut er greiðfær en annars er hálka, snjóþekja á flestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi.

Hálka og snjóþekja er á vegum á Vesturlandi, Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra. 

Á Norðaustur- og Austurlandi er talsvert mikið autt en hálkublettir eða hálka er með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert