Allir landshlutar búnir að jafna sig á hruninu

Mest aukning atvinnutekna varð á Suðurlandi frá 2008-2016, en langmesta …
Mest aukning atvinnutekna varð á Suðurlandi frá 2008-2016, en langmesta aukningin varð í ferðaþjónustu, líkt og víða um landið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frá árinu 2008 til 2016 jukust atvinnutekjur að raunvirði um 9,7%. Mest aukning varð í ferðaþjónustugreinum en mesti samdrátturinn í fjármála- og vátryggingaþjónustu og mannvirkjagerð. Á árunum 2015-2016 var hins vegar mikil aukning í mannvirkjagerð, sem og ferðaþjónustu, verslun, iðnaði og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Samdráttur varð hins vegar í atvinnutekjum í fiskveiðum.

Á árinu 2016 komust meðalatvinnutekjur í öllum landshlutum aftur yfir það sem þær höfðu verið fyrir hrunið árið 2008.

Hæstar meðalatvinnutekjur voru á Austurlandi þegar litið er til einstakra landshluta árið 2016, en þar á eftir kom höfuðborgarsvæðið. Lægstar voru meðaltekjurnar á Suðurnesjum og Norðurlandi vestra. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Byggðarstofnun gaf út í dag.

Þrátt fyrir að hafa hæstar meðalatvinnutekjur varð samdráttur á tímabilinu á Austurlandi, en það helgast af því að stóriðjuframkvæmdum þar lauk. Mesta aukningin á þessu tímabili var á Suðurnesjum, eða um 22%. Þar á eftir kemur Suðurland með 16% aukningu í atvinnutekjum og Norðurland eystra með 12%. Önnur svæði, utan Austurlands hækkuðu einnig öll.

Þegar stök svæði eru skoðuð sést að mörg eru langt undir landsmeðaltali um meðalatvinnutekjur. Þannig er hlutfallið aðeins 78% í Árnessýslu utan Árborgar, Hveragerðis og Ölfus, um 80% í Borgarbyggð, Dalabyggð og Skorradalshreppi, 83% í Rangárvallasýslu og Húnavatnssýslum og 87% í Hveragerði og Ölfus.

Á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu heildaratvinnutekjur um 9,1% á árunum 2008 til 2016.Hækkunin frá 2015 til 2016 var um 11%. Það þýðir að heildaratvinnutekjur á höfuðborgarsvæðinu náðu ekki tekjum ársins 2008 fyrr en árið 2016. Mestar atvinnutekjur voru greiddar í heilbrigðis- og félagsþjónustu, en þar á eftir komu verslun, fræðslustarfsemi og iðnaður.

Mest aukning á þessum árum var í ferðaþjónustu, en samdráttur var mestur í fiskveiðum. Meðalatvinnutekjur voru hæstar á Seltjarnarnesi og í Garðabæ á árinu 2016 um fjórðungi yfir landsmeðaltali. Meðalatvinnutekjur í Kópavogi voru nokkuð yfir landsmeðaltali það ár en rétt yfir því í Mosfellsbæ og Kjósarhreppi og í Hafnarfirði. Meðalatvinnutekjur í Reykjavík voru hins vegar rétt undir landsmeðaltali.

Hæstar atvinnutekjur í Reykjavík voru vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu, á Seltjarnarnesi var það vegna fjármála- og vátryggingarþjónustu, í Hafnarfirði var það vegna iðnaðar, en í Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og Kjósahreppi var verslun ástæða mestra atvinnutekna.

Heildaratvinnutekjur á Suðurnesjum hækkuðu um rúmlega 22% á milli áranna 2008 og 2016 en hækkunin á milli áranna 2015 og 2016 nam 18,5%. Mest af hækkun á atvinnutekjum á tímabilinu varð því á árinu 2016. Á árinu 2016 voru langmestu atvinnutekjurnar greiddar í flutningum og geymslu en þar nokkuð langt á eftir komu fiskvinnsla, fræðslustarfsemi, mannvirkjagerð, verslun, iðnaður og opinber stjórnsýsla.

Mest aukning á Suðurnesjum var í greinum tengdum ferðaþjónustu sem hafa sterka tengingu við Keflavíkurflugvöll. Verulegur samdrátur var hins vegar í mannvirkjagerð og fjármálastarfsemi. Meðaltekjur á Suðurnesjum voru árið 2016 um 90% af landsmeðaltali. Meðaltekjur voru hæstar í Grindavík, rétt um landsmeðaltal árið 2016 og höfðu hækkað verulega frá árinu 2008. Þær voru hins vegar aðeins um 90% í Reykjanesbæ og tæplega 85% í Sandgerði, Garði og Vogum.

Á Vesturlandi hækkuðu heildaratvinnutekjur um 6,5% á milli áranna 2008 og 2016. Þær hækkuðu um tæplega 9% á milli áranna 2015 og 2016 sem þýðir að líkt og á höfuðborgarsvæðinu var svæðið enn að endurheimta atvinnutekjur sem töpuðust í framhaldi af hruninu 2008 allt til ársins 2016. Á árinu 2016 voru mestu atvinnutekjurnar greiddar í iðnaði en nokkuð á eftir komu fræðslustarfsemi, fiskveiðar, heilbrigðis- og félagsþjónusta og fiskvinnsla.

Mesta aukningin á Vesturlandi var í fiskvinnslu, fræðslutengdri starfsemi og ferðatengdri starfsemi. Samdráttur varð í mannvirkjagerð, fjármálaþjónustu og fiskveiðum. Meðalatvinnutekjur á Vesturlandi voru rétt undir landsmeðaltali. Á suðursvæðinu með Akranes og Hvalfjarðarsveit og á Snæfellsnesi voru meðalatvinnutekjur aðeins yfir landsmeðaltali en langt undir landsmeðaltali í Borgarbyggð, Dalabyggð og Skorradalshreppi, þar sem þær voru aðeins ríflega 80% af meðaltalinu.

Heildaratvinnutekjur á Vestfjörðum hækkuðu um tæp 5% á tímabilinu 2008 til 2016. Eftir lækkun í framhaldi af hruninu 2008 hækkuðu atvinnutekjur um 7% bæði árin 2015 og 2016. Mestu atvinnutekjurnar voru greiddar í fiskveiðum en nokkuð þar eftir koma fiskvinnsla, opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónusta.

Mesta aukningin í atvinnutekjum á Vestfjörðum varð í fiskeldi en nokkuð langt þar á eftir komu fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta og gisting- og veitingar. Verulegur samdráttur varð hins vegar í mannvirkjagerð og opinberri stjórnsýslu auk fjármála- og vátryggingastarfsemi. Meðalatvinnutekjur í Ísafjarðarbæ eru á pari við landsmeðaltal en aðrir hlutar Vestfjarða rétt undir því.

Heildaratvinnutekjur jukust aðeins um ríflega 4% á tímabilinu 2008 til 2016 á Norðurlandi vestra. Það gerist þrátt fyrir að árin 2015 og 2016 hafi atvinnutekjur aukist um 6-7% hvort ár. Mestu atvinnutekjurnar voru greiddar í opinberri stjórnsýslu og fræðslustarfsemi. Þar á eftir komu verslun, fiskveiðar, heilbrigðis- og félagsþjónusta og iðnaður

Mesta aukningin á tímabilinu í atvinnutekjum á Norðurlandi vestra varð í landbúnaði, gistingu og veitingum, verslun og í fræðslustarfsemi. Verulegur samdráttur varð hins vegar í mannvirkjagerð og nokkur samdráttur í þremur af stærri greinum svæðisins: heilbrigðis- og félagsþjónustu og í fiskveiðum. Meðalatvinnutekjur á Norðurlandi vestra árið 2016 voru aðeins 90% af landsmeðaltali. Mikill munur er á Skagafjarðarsýslu þar sem að meðalatvinnutekjur voru 95% af landsmeðaltali og Húnavatnssýslum þar sem þær náðu aðeins 83%.

Á Norðurlandi eystra jukust heildaratvinnutekjur um tæp 12% á milli áranna 2008 og 2016. Eins og víða annars staðar varð veruleg aukning á árunum 2015 og 2016 en hún var 7-8% hvort ár. Mestu atvinnutekjurnar í landshlutanum voru greiddar í heilbrigðis- og félagsþjónustu, fræðslustarfsemi, iðnaði og fiskveiðum.

Mesta aukningin á tímabilinu í atvinnutekjum á Norðurlandi eystra var í gistingu og veitingum, iðnaði og í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Samdráttur varð í mannvirkjagerð, fiskveiðum og fjármála- og vátryggingaþjónustu. Meðalatvinnutekjur á Norðurlandi eystra voru um 95% af landmeðaltali. Eyjafjörður og Akureyri eru í kringum 95%, en Þingeyjarsýslur verulega undir landsmeðaltali með ríflega 91%.

Stærsta atvinnugreinin á svæðinu Eyjafirði án Akureyrar mælt í atvinnutekjum árið 2016 voru fiskveiðar. Á Akureyri var heilbrigðis- og félagsþjónusta stærst en þar á eftir komu fræðslustarfsemi og iðnaðar. Í Þingeyjarsýslunum voru fræðslustarfsemi, mannvirkjagerð, fiskveiðar og opinber stjórnsýsla stærstu greinarnar.

Á Austurlandi drógust heildaratvinnutekjur saman um 6,4% á tímabilinu 2008 til 2016 sem er afleiðing af því að á fyrri hluta tímabilsins lauk stórframkvæmdum við virkjun og uppbyggingu álvers á svæðinu. Atvinnutekjur á árunum 2015 og 2016 jukust um 7% fyrra árið en aðeins 3% það seinna. Langmestu atvinnutekjurnar á Austurlandi komu úr Iðnaði en nokkuð langt þar á eftir komu fiskvinnsla, fiskveiðar og fræðslustarfsemi.

Mesta aukningin á tímabilinu í atvinnutekjum á Austurlandi var í fiskvinnslu, gistingu og veitingum og í fræðslustarfsemi. Langmesti samdrátturinn varð hins vegar í mannvirkjagerð vegna loka stórframkvæmda, í iðnaði og fjármála- og vátryggingastarfsemi. Meðalatvinnutekjur á Austurlandi voru 8% yfir landsmeðalatali árið 2016, en á norðuhluta svæðisins voru þær aðeins undir landsmeðaltali, meðan þær voru 17% yfir landsmeðaltali á suðurhlutanum (sunnan Fagradals).

Á Suðurlandi jukust heildaratvinnutekjur um 16% á tímabilinu 2008 og 2016. Á árunum 2015 og 2016 jukust þær um 10% hvort ár. Mestu atvinnutekjurnar komu úr fræðslustarfsemi, iðnaði og félags- og heilbrigðisþjónustu. Langmesta aukningin á tímabilinu í atvinnutekjum á Suðurlandi var í gistingu og veitingum, þá í fiskvinnslu, fræðslustarfsemi og í leigu og sérhæfðri þjónustu. Mestur samdráttur varð hins vegar í mannvirkjagerð og fiskveiðum.

Meðalatvinnutekjur á Suðurlandi voru um 91% af landsmeðaltali árið 2016 en mjög breytilegar innan landshlutans. Þannig voru meðalatvinnutekjur í Vestmannaeyjum 8% yfir landsmeðaltali og aðeins yfir landsmeðaltali í Skaftafellssýslum. Í Árborg voru þær hins vegar aðeins um 89% af landsmeðaltali, 87% í Hveragerði og Ölfus, 83% í Rangárvallasýslu og aðeins 78% af landsmeðaltali í Árnessýslu utan Árborgar, Hveragerðis og Ölfus.

Stærstu atvinnugreinarnar eru mismunandi eftir svæðum. Í Skaftafellssýslum var stærsta greinin gisting og veitingar sem var á pari við fiskvinnslu og fiskveiðar samtals. Í Vestmannaeyjum voru fiskveiðar og fiskvinnsla langstærstu greinarnar. Í Rangárvallasýslu var það iðnaður. Í Árnessýslu utan Árborgar, Hveragerðis og Ölfus var það landbúnaður. Í Árborg voru stærstu greinarnar fræðslustarfsemi, iðnaður og heilbrigðis- og félagsþjónusta. Í Hveragerði og Ölfusi var það síðan heilbrigðis- og félagsþjónusta.

Skýrslu byggðarstofnunar má nálgast í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert