Mun skoða möguleika á skaðabótaskyldu

Sævar segist ætla að skoða hvort barnavernd hafi ekki sinnt …
Sævar segist ætla að skoða hvort barnavernd hafi ekki sinnt hugsanlegum tilkynningum um meint brot mannsins og mögulega skaðabótaskyldu vegna þess. mbl.is/Hari

Í gær kynnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu niðurstöðu af innri könnun sinni á hvernig ferli og rannsókn var háttað í tengslum við kæru á hendur stuðningsfulltrúa sem grunaður er um að hafa beitt dreng kynferðislegu ofbeldi þegar drengurinn var 8-14 ára. Ein af niðurstöðum lögreglunnar var að misfarist hafi að kanna starfsvettvang hans og láta barnaverndaryfirvöld vita  af málinu strax og það kom upp.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður drengsins og systkina hans, segir, spurður út í hvort að hann muni fyrir hönd skjólstæðings síns skoða mögulega ábyrgð lögreglunnar vegna þessa máls, að þegar rannsókn lögreglu ljúki muni hann skoða mögulega skaðabótaskyldu gegn barnavernd. Segist hann munu skoða hvort að barnavernd hafi ekki sinnt hugsanlegum tilkynningum um kynferðisbrot starfsmanna á tímabilinu fyrir 2010.

Vísar Sævar til þess að barnavernd hafi fengið tilkynningu um málið árið 2008 sem hefði getað orðið til þess að hægt hefði verið að koma í veg fyrir brot mannsins tveimur árum fyrr, en meint brot mannsins stóðu yfir árin 2006-2010.

Segir hann að í ljósi þess að barnavernd hafi ekki fundið neitt skráð um tilkynninguna í skrám sínum að skoða þurfi vandlega hvernig skráningum hjá barnaverndaryfirvöldum er háttað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert