Náði ekki sambandi við WOW air

A330 breiðþota WOW-air.
A330 breiðþota WOW-air.

Benedikt Halldórsson átti í mestu erfiðleikum með að ná sambandi við WOW air eftir að flugi hans frá Baltimore til Keflavíkur var frestað á sunnudaginn vegna óveðurs.

Flogið var aftur í gærkvöldi og lent snemma í morgun að íslenskum tíma en til að komast um borð í vélina þurftu farþegar fyrst að hafa samband við WOW air á Íslandi til að ganga frá sínum málum. Annars máttu þeir ekki fara með.

Flugvöllurinn náði ekki sambandi

Benedikt segist hafa reynt margoft að hafa samband við flugfélagið, án árangurs. Sumir ferðafélagar hans reyndu alla nóttina að ná sambandi. „Það náðist ekkert samband. Þá ákváðum við að fara á flugvöllinn en þá náði flugvöllurinn ekki sambandi,“ greinir hann frá.

Hann segir eðlilegt að starfsfólk flugvallarins hafi ekki getað afgreitt flugmiðana nema að fá fyrst staðfestingu hjá WOW air. Aftur á móti sé ekki eðlilegt að hvorki farþegar né flugvallarstarfsmenn hafi náð sambandi við flugfélagið.

„Sumir náðu eftir krókaleiðum eftir langan tíma sambandi við WOW air, aðrir ekki. Það var bara tilviljun hverjir náðu inn og hverjir ekki.“

Hann segist hafa loksins náð í flugfélagið eftir að hafa séð flugáhöfnina á gangi um flugstöðvarbygginguna. „Ég rýk á hana og spyr hvað sé í gangi,“ segir hann og  í framhaldinu náði kona úr flugáhöfninni sambandi við flugfélagið. 

„Þetta fór vel, en þetta var mikið stress hjá öllum,“ segir Benedikt, sem lenti á Íslandi í morgun.

Álagið mikið

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir að mikið álag hafi verið hjá flugfélaginu á þessum tíma, enda hafði óveðrið áhrif á um 6 þúsund farþega.

Hún segir að flugfélagið hafi sent mjög reglulega upplýsingar til farþega bæði í gegnum smáskilaboð og með tölvupósti um gang mála. Mögulega hafi maðurinn sem um ræðir ekki fengið þær upplýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert