Hviðurnar þegar komnar upp í 50 m/s

Veðurspá að morgni miðvikudagsins 14. febrúar. Slegið getur í ofasaveður …
Veðurspá að morgni miðvikudagsins 14. febrúar. Slegið getur í ofasaveður á Suður- og Suðausturlandi.

Spá Veðurstofunnar um ofsaveður á Suður- og Suðausturlandi virðist vera að ganga eftir. Þegar hefur mælst hviða upp á 50 m/s á Steinum undir Eyjafjöllum og Vegagerðin er búin að loka þjóðvegi 1 frá Hvolsvelli að Jökulsárlóni.

Einnig hefur verið lokað á umferð um Hellisheiði og Kjalarnes og þá hefur flugi til Vestmannaeyja verið aflýst.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suður- og Suðausturlandi og segir í spá Veðurstofunnar að þar geti slegið í ofsaveður þegar hæst stendur og því alls ekkert ferðaveður. „Þetta er smáhvellur þegar að samskil lægðarinnar fara inn á  Suður- og Suðausturland,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur.

„Væntanlega verður blint þarna um tíma með skafrenningi og snjókomu, en síðan getur þetta farið yfir í slyddu og rigningu.“  

Vindhraði syðst á landinu verður á bilinu 25-30 m/s, en hviðurnar geta farið allt upp í 50 m/s undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum. Þegar hefur raunar mælst hviða upp á 50 m/s á Steinum undir Eyjafjöllum og í Hvammi undir Eyjafjöllum er hviða komin í 40 m/s. Þannig að þetta virðist vera að ganga eftir,“ segir Þorsteinn.

Óveðrið stendur þó sem betur fer ekki mjög lengi yfir á hverjum stað. Það lægir því snögglega við suðurströndina kringum hádegi og síðar einnig í öðrum landshlutum, með þeirri undantekningu að það blæs hraustlega á Vestfjörðum fram yfir miðnætti. 

Hægur vindur verður síðan á landinu á morgun og ekki er að sjá nein stórátök í kortunum fyrir föstudag og laugardag. Á sunnudag og mánudag gæti hann farið í sunnanátt með hláku, en enn er óvissa í spám um hversu mikil hlýindin verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert