Gerð kirkjugarðs gæti haft áhrif á loftgæði

Yfirlitsmynd af fyrirhuguðu framkvæmdarsvæði og umhverfi. Guli reiturinn er fyrirhugað …
Yfirlitsmynd af fyrirhuguðu framkvæmdarsvæði og umhverfi. Guli reiturinn er fyrirhugað framkvæmdarsvæði. Mynd úr frummatsskýrslu

Reykjavíkurborg hyggst gera nýjan kirkjugarð í vesturhlíð Úlfarsfells sem hefur þann tilgang að viðhalda framboði á grafarstöðum á höfuðborgarsvæðinu en fyrirsjáanlegt er að rými til greftrunar í núverandi kirkjugörðum innan borgarinnar verði uppurið innan fárra ára samkvæmt mati kirkjugarðaráðs. Framkvæmdin er matsskyld og háð lögum um mat á umhverfisáhrifum vegna umfangs efnislosunar við mótun kirkjugarðsins og hefur frummatskýrsla nú verið lögð fram til kynningar.

Framkvæmdin felur í sér haugsetningu á 570.000 m3 af góðum ómenguðum jarðvegi og landið mótað þannig að það sé grafartækt. Heildarstærð hins nýja kirkjugarðs verður 22,5 hektarar og þar af eru 20,3 hektarar sem verða haugsettir. Gert er ráð fyrir því að fyllingin verði mest 5 metra djúp, en á stærstum hluta svæðisins verður fyllingin um 3 metra djúp.

Meginhluti þess jarðvegs, sem haugsettur verður, kemur frá uppbyggingarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu, m.a. í Vatnsmýri, Mjódd og Valssvæðinu. Gerð verður krafa um að efnið, sem notað verður í haugsetninguna, sé góður og ómengaður jarðvegur, þ.e. grafarhæft efni s.s. mold og lífrænt efni. Á framkvæmdartíma verður notaður tímabundinn vegur sem búið er að leggja, þar sem varanlegur aðkomuvegur kirkjugarðsins hefur enn ekki verið lagður.

Fimm ár tekur að móta garðinn

Framkvæmdartími er áætlaður 5 ár en það getur verið breytilegt út frá uppbyggingarsvæðum og hvort kröfum um efnið sem verður haugsett þaðan reynist vera af nægilega góðum gæðum. Eftir að haugsetningu og landmótun lýkur hefst frágangur lóðar í samræmi við fyrirliggjandi deiliskipulag kirkjugarðs í Úlfarsfelli sem byggist á vinningstillögu Landmótunar, segir í frummatsskýrslunni.

Í frummatsskýrslu er lagðar fram mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum framkvæmdar:

  • Gert er ráð fyrir að gróðursett verði á svæði nálægt fyrirhuguðum kirkjugarði samsvarandi að stærð og það svæði sem fer undir haugsetninguna í samráði við Skógræktina. Um 6,5 hektarar af skógræktarsvæði munu fara undir haugsetningu. 
  • Dregið verður úr möguleikanum á að gruggugt ofanvatn og jarðvegur skolist út af svæðinu í aftakaúrkomu með gerð ofanvatnsrása og/eða fyrirstaðna sem tefja fyrir framrás og skapa tímasvigrúm fyrir niðursig.
  • Búast má við foki fínefna frá haugsetningu yfir byggð, sér í lagi norður fyrir Korputorg í áttina að Staðarhverfi, þegar ákveðin veðurskilyrði eru fyrir hendi. Dregið verður úr áhrifum með því að sá í jarðveginn jafnóðum og þegar hverjum áfanga er lokið til að hefta sandfokið. Eftir að framkvæmd lýkur verður svæðið grætt upp í samræmi við deiliskipulag fyrirhugaðs kirkjugarðs.
  • Búast má við að mold geti borist með bílum frá vinnusvæðum. Settar verða upp þvottastöðvar og/eða hreinsigrindur við innkeyrslu inn á framkvæmdarsvæði og inn á uppbyggingarsvæði til að koma í veg fyrir að mold berist út á götur.
  • Svæðin í kringum fornleifar verða ekki nýtt sem geymslustaðir eða brautir fyrir vélar og tæki eða efnisgeymslur nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
  • Náttúrulegt útlit klettarana sem ná inn á lóð kirkjugarð fær að halda sér.

Vinsælt útivistarsvæði í grennd

Gróðurþekja er á svæðinu í bland við mela, að mestu í formi lynggróðurs og mosaþúfna. Á gróðurfari má sjá góðan vöxt austast á svæðinu og næst hlíðum Úlfarsfells. Ríkjandi vindáttir eru austanáttir en framkvæmdarsvæðið er að einhverju leyti í vari frá Úlfarsfellinu. Skógræktarsvæði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, sem er norðan við framkvæmdarsvæðið, nær að hluta til inn fyrir sveitarfélagamörkin og inn á framkvæmdarsvæðið. Engir lækir eða vötn eru innan svæðisins. Sunnarlega á framkvæmdarsvæði eru menningarminjar sem hafa lágt minja- og varðveislugildi.

Úlfarsfell er vinsælt útivistarsvæði og er þekkt fyrir skemmtilegar gönguleiðir. Meginútivistarsvæðið liggur fyrir ofan og innar í Úlfarsdalnum miðað við fyrirhugað framkvæmdarsvæði. Háspennulína liggur yfir svæðið og tengist tengivirki Veitna vestan við svæðið.

Óveruleg eða talsverð neikvæð áhrif

Það er niðurstaða mats á umhverfisáhrifum að framkvæmdin í heild komi til með að hafa óveruleg til talsverð neikvæð áhrif á umhverfisþætti. Talið er að framkvæmdin muni hafa talsvert neikvæð áhrif á loftgæði sem og á ásýnd lands. Að öðru leyti er talið að áhrifin verði óveruleg.

Skipulagsstofnun á eftir að gefa út álit sitt á matsskýrslunni eftir að kynningartíma lýkur og athugasemdir sem fram koma liggja fyrir.

Yfirlitsmynd yfir skipulag kirkjugarðsins.
Yfirlitsmynd yfir skipulag kirkjugarðsins. Mynd úr frummatsskýrslu

Reykjavíkurborg hefur haft samráð við ýmsa aðila varðandi framgang verkefnisins. Á matsáætlunarstigi bárust umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands, Skógræktarfélagi Reykjavíkur og Minjastofnun Íslands. Tekið var tillit til umsagna í frummatsskýrslu. Samráð var haft við Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar Hamrahlíð, Skógræktarfélagi Reykjavíkur og Skógræktinni varðandi umfang skógræktarsvæðis innan framkvæmdarsvæðis. Á kynningartíma frummatsskýrslu verður leitað umsagna til Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Mosfellsbæjar, Veðurstofu Íslands, Skógræktarinnar og Minjastofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Landsnets. Haldinn verður kynningarfundur um framkvæmdina á kynningartíma frummatsskýrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert