Lögreglan á Spáni eina von Sunnu

Sunna Elvira á sjúkrabeði ásamt dóttur sinni.
Sunna Elvira á sjúkrabeði ásamt dóttur sinni.

Eina von Sunnu Elviru Þorkelsdóttur um að komast heim til Íslands á næstunni er sú að lögregluyfirvöld á Spáni gefi sig og aflétti farbanni yfir henni. Þetta segir Páll Kristjánsson, lögmaður hennar. Hann telur þó að lögreglan á Íslandi geti haft áhrif á stöðuna.

„Ef lögreglan gerir sannarlega kröfu um að hún komi heim til að svara spurningum og slíku. Ég held að lögreglan gæti beitt sér með þeim hætti. Lögreglan hér heima myndi þá á sama tíma tryggja viðveru hennar, að hún gæti ekki stungið af. Það er sú pressa sem ég er að setja á lögregluna á þessum tímapunkti,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

Aðspurður hvort það hann finni fyrir því að eitthvað sé að liðkast til segir hann það mjög lítið áþreifanlegt. „Maður verður ekki var við það, en ég vona það.“

Sunna, sem hlaut mænuskaða eftir að hafa fallið á milli hæða á heimili sínu á Spáni í janúar, ræddi sjálf við fjölmiðla í gær, bæði Morgunblaðið og Fréttblaðið. Í síðarnefnda viðtalinu sagðist hún hafa fengið taugaáfall á spítalanum og í kjölfarið áttað sig á því að hún yrði á fá hreyfingu á mál sitt. Þess vegna ákvað hún að ræða við fjölmiðla.

Páll segist vita til þess að viðtöl við Sunnu í gær hafi sett aukinn þrýsting á ráðuneytin, en það hafi hins vegar ekkert gerst í málinu síðastliðinn sólarhring. „Það er einhver vinna í bak við tjöldin sem maður veit um. Það eina sem ég geri hérna heima er að beita þrýstingi á málinu sé sinnt og miðla upplýsingum til lögmannsins á Spáni. En það hefur lítið gerst í dag,“ segir Páll.

Full­trúi frá ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu fór út til Spán­ar fyrr í vikunni þar sem hann ætl­ar að kynna sér mál Sunnu og miðla upplýsingum heim til Íslands. Er það gert til að hægt sé að tryggja að hún fá viðeigandi umönnun. Sunna, foreldrar hennar og lögmaður, segja að hún fái ekki viðeigandi umönnun á því sjúkrahúsi sem hún er á núna, en reynt hefur verið að fá hana flutta á annað sjúkrahús þar sem sérhæfing í mænuskaða er til staðar. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir. Páll segist hins vegar vita til þess að fulltrúi ráðuneytisins sé að beita sér fyrir því að Sunna verði flutt í viðunandi aðstöðu.

Sunna hef­ur verið í far­banni á Spáni eft­ir að eig­inmaður henn­ar var hand­tek­inn við kom­una til Íslands, skömmu eftir slysið, grunaður um aðild að fíkni­efna­máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert