Þrengslum og Holtavörðuheiði lokað

Lokað hefur verið á umferð um Þrengslin. Mynd úr safni.
Lokað hefur verið á umferð um Þrengslin. Mynd úr safni. mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson

Búið er að loka á umferð um Holtavörðuheiði og Þrengslin að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Einnig er lokað á umferð um Hellisheiði, Sandskeið, Lyngdalsheiði, Bröttubrekku og Fróðárheiði. Þá er þjóðvegur 1 frá Hvolsvelli að Jökulsárlóni lokaður, sem og umferð um Hólasand.

Búið er hins vegar að opna á ný á umferð um Kjalarnes.

Miklar líkur eru einnig á því að loka þurfi vegum á Vestfjörðum, Mosfellsheiði, Snæfellsnesi, Norðurlandi, uppsveitum Árnessýslu og Austurlandi. Eru vegfarendur hvattir til að kynna sér upplýsingar á vef Vegagerðarinnar áður en þeir halda af stað.                           

Undir Eyjafjöllum og í Öræfum á veðrið að ganga niður um leið og skilin fara yfir um hádegið og suðvestanlands lægir upp úr hádegi.  Norðanlands verður vindur og skafrenningur í hámarki um miðjan daginn og lægir síðan, en norðaustanáttin gengur ekki niður á Vestfjörðum og við Breiðafjörð fyrr en í kvöld.  

Færð og aðstæður

Hálkublettir og skafrenningur er á Reykjanesbraut og á höfuðborgarsvæðinu. Hálka og skafrenningur er á Kjalarnesi. Þæfingsfærð er frá Þorlákshöfn að Selvogi. Hálka og skafrenningur er á Suðurstrandarvegi. Þungfært og skafrenningur er á Krýsuvíkurvegi.

Á Suðvestur- og Suðurlandi er hálka, snjóþekja eða þæfingur og skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingsfærð og skafrenningur er frá Hvolsvelli að Þjórsá og á Mosfellsheiði. Þungfært er á Kjósarskarðsvegi. Ófært er í Landeyjum og í Fljótshlíð.

Á Vesturlandi er snjóþekja, hálka eða þæfingur á flestum leiðum og eitthvað um skafrenning á fjallvegum. Þungfært og mjög hvasst er við Hafursfell og á Vatnaleið. Ófært er á Útnesvegi.

Vestfjörðum er snjóþekja, hálka eða þæfingur. Fjallvegir á sunnanverðum Vestfjörðum eru ófæri og beðið með mokstur.  Beðið er með mokstur í Ísafjarðardjúpi, á Steingrímsjarðarheiði, Þröskuldum. Ófært á Gemlufallsheiði.

Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja.

Á Austurlandi er hálka eða  snjóþekja. Hálka og éljagangur er frá Egilsstöðum og með ströndinni að Jökulsárlóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert