Mjög hált á höfuðborgarsvæðinu

Það borgar sig að fara varlega í hálkunni nú í …
Það borgar sig að fara varlega í hálkunni nú í morgunsárið. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Mjög hált er á gangstéttum og stígum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ og borgar sig að fara varlega. Ekki hefur verið tilkynnt um neitt vatnstjón enn sem komið er, segir varðstjóri í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Það hefur mikið tekið upp á Suður- og Suðvesturlandi og vegir ýmist auðir eða aðeins með hálkublettum. Þó er krapi á Mosfellsheiði og Kjósarskarði og hálka á fáeinum sveitavegum – raunar flughált á Krýsuvíkurvegi, segir í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.

Verið er að kanna færð í flestum landshlutum og hreinsa og hálkuverja þar sem þess þarf.  Nánari fréttir eiga að berast fyrir klukkan átta.

Von er á vonskuveðri á miðvikudag og er gul viðvörun í gildi fyrir allt landið þann dag. Aftur á móti bendir allt til þess að veðrið verði ekki jafnslæmt og áður hafði verið spáð.

965 mb lægð er 650 km suðvestur af Reykjanestá og skil frá henni eru að klára að ganga yfir landið. Eftir skilin verður hægari sunnanátt í skamman tíma en hvessir svo aftur upp í sunnan 13-18 m/s. Sunnanáttin verður allsráðandi síðdegis.

Það rignir víða á láglendi, einkum um landið sunnanvert en léttir til um landið norðanvert er líður á daginn og rigningin verður að skúrum sunnan og vestan til. Suðvestlægari vindur og veður fer kólnandi, slydduél í nótt en él á morgun og bjartviðri um landið austanvert. 

Útlit er fyrir að næsta lægð komi upp að landinu á miðvikudag með talsverðri rigningu um landið sunnanvert og gengur í storm eða rok en veðurhæðin er heldur minni en í eldri líkanakeyrslum. Það er þó enn þá nokkuð langt í miðvikudag og spár verða nákvæmari og óvissa minni þegar nær dregur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Í dag er spáð suðaustan 13-18 m/s og suðlægari síðdegis en heldur hvassara á Snæfellsnesi. Víða rigning á láglendi en úrkomuminna á Norður- og Austurlandi. Dregur heldur úr úrkomu með deginum og léttir einnig til um landið norðaustanvert. Hiti 2 til 8 stig.

Suðvestlægari vindur í nótt og kólnar, suðvestan 10-15 m/s og él á morgun, en heldur hægari og léttskýjað norðaustan- og austanlands. Vægt frost, en hiti rétt yfir frostmarki með suður- og vesturströndinni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Suðvestan 10-15 m/s og él, en heldur hægari og léttskýjað norðaustan- og austanlands. Vægt frost, en hiti rétt yfir frostmarki með suður- og vesturströndinni. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir sunnanstorm, en mögulega rok eða ofsaveður vestan til á landinu. Snjókoma, slydda eða rigning, talsverð úrkoma á sunnanverðu landinu. Hlýnar í veðri, hiti 1 til 6 stig á láglendi upp úr hádegi. Lægir síðdegis, fyrst vestast. Suðvestan 8-15 um kvöldið, él og kólnandi veður, en áfram hvasst og rigning eða slydda austast. 

Á fimmtudag:
Suðvestan 13-18 og él, en heldur hægari og léttskýjað norðaustan til. Frost um land allt. 

Á föstudag:
Sunnanstormur eða rok með talsverðri rigningu eða slyddu en úrkomuminna fyrir norðan. Hiti 2 til 7 stig. 

Á laugardag:
Suðvestanátt og él, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti kringum frostmark. 

Á sunnudag:
Suðlæg átt og rigning um austanvert landið en þurrt vestan til. Hlýnar í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert