Vilja þvinga „of unga“ íbúa úr blokkinni

Ljósmynd/Björn Birgisson

Margir íbúar Grindavíkur eru gáttaðir á framgöngu forsvarsmanna húsfélags 50+ blokkarinnar Suðurhóp 1 í Grindavík sem boðuðu í lok síðustu viku til húsfélagsfundar til þess að vísa hjónum og syni þeirra úr íbúð sinni.

Hjónin keyptu nýverið íbúðina af aldraðri frænku þeirra sem fékk inni á dvalarheimili fyrir aldraða. Hvorugt þeirra hefur náð sextugsaldri en í eignarlýsingarsamningi hússins segir að það sé ætlað 50 ára og eldri. Það sem vekur athygli er að maðurinn nær sextugsaldrinum á árinu og kona hans á því næsta. Hjónin eiga 19 ára son.

„Hver einasti kjaftur sem ég hef rætt þetta við skilur ekkert í þessu rugli. Ekki einn einasti stendur með íbúum blokkarinnar í þessu máli,“ segir Gauti Dagbjartsson, frændi mannsins sem keypti íbúðina, en það var móðir Gauta sem seldi íbúðina hjónunum. 

„Þetta er svo yfirgengilega mikil vitleysa að maður skilur þetta ekki,“ segir Gauti en bætir við að reiðin í Grindavík sé mest yfir því að húsfundurinn hafi verið boðaður á fimmtudagskvöld en á föstudaginn var yngsti bróðir frænda hans jarðaður, 34 að aldri.

„Við erum ekki í New York, þetta er Grindavík. Það vissu allir í blokkinni af jarðarförinni,“ segir Gauti um ónærgætni íbúa blokkarinnar. „Við þessar aðstæður hefðu einhverjir sleppt því að fara af stað með þennan fund, einhverjir hefðu ekki gengið svona langt og því síður birt þetta á þessum tímapunkti,“ segir Gauti.

Margir Grindvíkingar eru hissa á framgöngu húsfélagsins.
Margir Grindvíkingar eru hissa á framgöngu húsfélagsins. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert