Björgunarsveitir tilbúnar klukkan 6

Björgunarsveitarmenn að störfum.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Níu björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu verða með hópa í húsi í viðbragðsstöðu klukkan 6 í fyrramálið vegna óveðursins sem hefur verið spáð.

„Þetta er gert til þess að vera með styttri viðbragðstíma þegar og ef skellurinn kemur,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, og telur að alls verði um fimmtíu manns tilbúnir.

Hann býst við að hópar frá björgunarsveitum verði einnig í viðbragðsstöðu snemma í fyrramálið víðar um landið.

Davíð Már segir tímasetninguna, klukkan 6 í fyrramálið, hafa verið ákveðna vegna þess að þá eru flestir á höfuðborgarsvæðinu á leið í vinnu.

Hann vill ítreka að fólk fylgist með fjölmiðlum í fyrramálið og tilkynningum frá lögreglu, Vegagerðinni og öðrum viðbragðsaðilum. Það haldi sig frekar heima fyrir á meðan mesti skellurinn gengur yfir, ef ástandið verður þannig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert