Flug til Grænlands í uppnámi

Flugvöllurinn í Kulusuk.
Flugvöllurinn í Kulusuk. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við urðum að fella niður flugið í gær og í raun er það þannig að ef Kulusuk er lokaður, eins og hann er núna, þá er má segja allt okkar flug til og frá Grænlandi í uppnámi,“ segir Árni Gunnarsson, forstjóri Air Iceland Connect, í samtali við mbl.is.

Mjög slæmt veður var í bænum Kulusuk á austurströnd Grænlands í gær með þeim afleiðingum að mastur við flugvöllinn í bænum féll. Árni segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem félagið hafi fengið liggi fyrir vikið allt net- og símasamband niðri.

Til þess að hægt sé að fljúga á áfangastaði Air Iceland Connect á Grænlandi þarf flugvöllurinn í Kulusuk að vera opinn og geta sinnt hlutverki varaflugvallar. Fyrir utan áætlanaflug til Kulusuk. Ekki liggja fyrir upplýsingar að sögn Árna um viðgerðartíma.

„Við erum að vonast til þess að þeir séu að vinna í þessu núna bara hratt og örugglega og að þetta taki ekki mjög langan tíma. En eins og staðan er núna erum við að bíða eftir næstu upplýsingum um hádegið og athuga hvernig staðan verður þá.“

Tvö flug eru á dagskrá í dag, annars vegar til Nuuk og hins vegar til Ilulissat. Þau eru bæði í biðstöðu á meðan ekki er hægt að fljúga til Grænlands. Farþegum sem ætluðu til Íslands frá Nuuk í gær, og þurftu á því að halda, var komið í gistingu.

Flug Air Iceland Connect til Grænlands liggur því niðri þar til flugvöllurinn í Kulusuk verður opnaður á nýjan leik. Flugfélagið bíður átekta og er í startholunum að hefja flug á nýjan leik um leið og gefið verður grænt ljós á það frá Grænlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert