„Þeir geta ekkert farið“

Arwa Ahmed Hussein Al-Fadhli á svölum íbúðar sinnar í Kópavogi. …
Arwa Ahmed Hussein Al-Fadhli á svölum íbúðar sinnar í Kópavogi. Kári sonur hennar fylgist með móður sinni úr dyragættinni. mbl.is/Hari

Þegar Arwa Ahmed Hussein Al-Fadhli var að læra arkitektúr í Sanaa, höfuðborg Jemen, á árunum 2000-2005 var þar allt með kyrrum kjörum. Fátækt ríkti hjá stórum hluta þjóðarinnar, eins og verið hafði lengi, en en engin átök geisuðu. Þegar hún heimsótti svo landið aftur árið 2011, eftir að hafa verði búsett á Íslandi í nokkur ár, fann hún að spenna var að myndast í loftinu. „Það hafði eitthvað breyst og ég fann það,“ segir Arwa þar sem hún situr við eldhúsborðið heima hjá sér í Kópavogi á meðan sonur hennar, Kári, leikur sér í kringum hana.

„Nú er ástandið hræðilegt, stríð hefur brotist út og fólkið hefur hvorki mat né vatn. Það fær ekki nauðsynleg lyf. Margir eru ekki með vinnu og hafa selt eigur sínar til að eiga fyrir einhverju smávegis að borða. Fólkið getur ekki flúið landið, landamæri annarra ríkja eru lokuð. Það er helst að einhverjir flýi til Afríkulandsins Djíbútí sem er fátækt land eins og Jemen og þar er framtíð flóttafólksins ekki björt.“

Arwa ólst upp í Sádi-Arabíu en lærði arkítektúr í Sanaa, …
Arwa ólst upp í Sádi-Arabíu en lærði arkítektúr í Sanaa, höfuðborg Jemens. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Arwa og aðrir í hópnum Vinum Jemens vilja gera sitt til að reyna að finna lausnir til að lina þjáningar Jemena. Þau ætla því að hitta Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag og ræða ástandið í landinu og hvort og þá hvernig Ísland geti með einhverjum hætti brugðist við. Munu fulltrúar hópsins afhenda Katrínu áskorun til ríkisstjórnar Íslands um að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir vopnahléi og friðarsamningum. 

 „Það er fólkið sem skiptir mestu máli, að það fái hjálp,“ segir Arwa. „Og við þurfum öll að reyna að gera eitthvað.“

Kom til Íslands rétt fyrir hrun

Arwa er 37 ára gömul og flutti til Íslands árið 2008. Hún er gift Hauki Valdimarssyni og saman eiga þau soninn Kára.

En af hverju kom ungur arkitekt frá Jemen til Íslands?

„Ég hafði búið í Sádi-Arabíu eftir arkitektanámið en þar er ég fædd og uppalin þó að ég hafi verið jemenskur ríkisborgari. Foreldrar mínir bjuggu og búa þar enn. Í Sádi-Arabíu var enga vinnu að hafa á þessum tíma fyrir arkitekta en hálfbróðir minn, Ómar Stefánsson, hvatti mig til að koma til Íslands og vinna. Þetta var í byrjun ársins 2008 og nóg að gera. Ég kom því hingað og fékk vinnu á arkitektastofu. En svo kom kreppan og ég missti vinnuna fljótlega eins og svo fjölmargir aðrir. Það var áfall að missa vinnuna, ég var nýbúin að hefja hér nýtt líf.“

Sama dag og henni var sagt upp störfum fékk hún þó óvæntar og góðar fréttir sem glöddu hana. Er hún kom heim beið hennar bréf um að hún hefði fengið dvalarleyfi sitt framlengt um eitt ár. „Þetta var ótrúlegt! Þarna lokuðust einar dyr en aðrar opnuðust um leið.“

Kynntust í strætó

Á þessum tíma voru taugar Örwu til Íslands orðnar sterkar, ekki síst vegna þess að hún hafði hér kynnst manni. „Við tókum sama strætó. Fórum upp í vagninn á sama stað í Hamraborginni og fórum út á sömu stoppistöð í Reykjavík,“ segir Arwa um þeirra fyrstu kynni. „Einn daginn þá hugsaði ég: Við þurfum bara að tala saman. Og ég sagði hæ.“

Ári eftir að hún flutti til Íslands var hún svo gift manninum sem hún kynntist í strætó, Hauki Valdimarssyni. „Og núna í mars höfum við verið gift í níu ár,“ segir hún og hlær innilega.

Haukur og Arwa ásamt Kára í fríi í Sádi-Arabíu. Þar …
Haukur og Arwa ásamt Kára í fríi í Sádi-Arabíu. Þar ólst Arwa upp og þar búa foreldrar hennar í dag. Úr einkasafni

Eftir að hafa misst vinnuna á arkitektastofunni hóf Arwa tímabundið störf á veitingastað í Reykjavík. „Það var áhugaverður tími og góð lífsreynsla.“

Vorið 2010 fékk Haukur vinnu á Akureyri og þau fluttu þangað. Við tók enn eitt lærdómsfulla tímabilið í lífi Örwu. „Mér finnst Akureyri dásamlegur staður,“ segir hún með áherslu. „Ég elska þennan fallega bæ. Ég kynntist þarna svo mörgu góðu fólki. Ég kunni mjög vel við mig þar.“

Dansaði undir berum himni

Arwa og Haukur bjuggu í fimm ár á Akureyri og Arwa beitti ýmsum ráðum til að afla sér tekna, m.a. hélt hún námskeið í arabískri matreiðslu og seldi krydd. „Ég varð að gera eitthvað,“ rifjar hún upp. Svo kynntist hún fólki sem hafði eins og hún gaman af því að dansa og það undir berum himni. „Við fórum oft út að dansa saman. Mér finnst svo gaman að dansa. Þegar ég dansa þá finnst mér ég frjáls.“

Fleira veitti henni frelsi á Akureyri, m.a. bílprófið sem hún tók þar en á æskuslóðunum í Sádi-Arabíu hefur konum þar til nýverið verið bannað að aka bíl.

Ein mesta sælustundin var þó er henni var tilkynnt að hún fengi íslenskan ríkisborgararétt árið 2012. „Ég hafði beðið eftir að fá bréfið um það og fór daglega að kíkja í póstkassann!“ Hún var ólétt af Kára er bréfið loks kom. „Vá, ég varð svo glöð að ég hrópaði upp yfir mig! Ég mun alltaf muna þennan dag. Lífið mitt byrjaði þarna.“

Bréfið sem breytir öllu

Arwa hefur kynnst því af eigin raun hvað miklu máli getur skipt hver ríkisborgararéttur fólks er. Eitt sinn áður en hún fékk íslenskt vegabréf ætlaði hún að fara frá Íslandi til Sádi-Arabíu. Hún var stöðvuð af starfsmönnum British Airways á flugvelli í London og spurð spjörunum úr í þrjár klukkustundir. Hún var þá með jemenskan ríkisborgararétt og það þótti grunsamlegt. Síðar, er hún fór á íslenska vegabréfinu til Bretlands, var allt annað uppi á teningnum. „Allir voru þá vinalegir og buðu mig velkomna. Þetta er svo skrítið. Ég hef alltaf verið sama manneskjan en það er komið allt öðruvísi fram við mann út af einu bréfi.“

Arwa vonar að einn daginn geti hún farið með Kára …
Arwa vonar að einn daginn geti hún farið með Kára son sinn til Jemen. Hér eru þau mæðgin saman í Sádi-Arabíu. Úr einkasafni

Kári fæddist á Akureyri í apríl árið 2013 en árið 2015 fékk Haukur vinnu hjá Atlanta og var ýmist að vinna á Íslandi eða í Sádi-Arabíu. Þá ákvað Arwa að flytja suður þar sem hálfbróðir hennar og fjölskylda bjuggu. Hún skráði sig í Háskóla Íslands í íslensku sem annað tungumál. Í haust hóf hún svo meistaranám í skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands og það stundar hún enn. Hún vonast til að útskrifast á þremur árum.

Missti vinkonur sínar í sprengjuárás

Þó að Arwa sé hvorki fædd né uppalin í Jemen eru tengsl hennar við landið mikil. Foreldrar hennar, sem eru báðir af efnuðum fjölskyldum á jemenskan mælikvarða, eru þaðan og bróðir hennar býr nú í hafnarborginni Aden ásamt fjölskyldu sinni. Nokkur átök hafa verið í Aden en í augnablikinu er ástandið betra en oft áður. „Bróðir minn er með vinnu og getur séð fyrir fjölskyldunni sinni,“ segir Arwa. Sömu sögu er ekki að segja af fjölmörgum löndum hans. „Það er erfitt að fá mat, vatn, lyf og aðrar nauðsynjavörur. Það er líka allt svo dýrt. Fyrir þá sem hafa enga vinnu er lífið mjög erfitt. Sumir hafa hreinlega ekki efni á mat.“

Arwa segir að oft sé erfitt að heyra skelfilegar fréttir af stríðsástandinu í Jemen. „Stundum líður mér ekki vel. Tvær skólasystur mínar dóu í sprengjuárás árið 2015 á þeim tíma sem Sádi-Arabar voru að byrja loftárásirnar. Sprengja féll á fjall og grjótskriða fór af stað og þær dóu. Ég veit svo ekkert um margar vinkonur mínar, hvar þær eru niðurkomnar.“

Selja eigur sínar

Ein vinkona og fjölskylda hennar borða aðeins eina máltíð á dag. „Þau eru ekki með vinnu og fá engin laun. Kennarar og aðrir ríkisstarfsmenn hafa engin laun fengið í marga mánuði. Hún segir mér að margt fólk hafi selt húsgögnin sín og annað sem það á, bara til að fá mat að borða.“

Arwa segist hugsi yfir því að lítið virðist vera gert til að hjálpa Jemenum í þessari skelfilegu stöðu. Þeir eru ekki velkomnir til nágrannaríkjanna Sádi-Arabíu og Óman. Yfir þeirra landamæri er heldur ekki hægt að koma nauðsynjavörum. „Þetta er oft kallað gleymda stríðið. Það eru ekki margir sem sýna þessu áhuga.“

Hún segir hluta af skýringunni líklega vera þá að Sádi-Arabar, sem eru í hernaðarbandalagi með stjórnarher forsetans útlæga og bera ábyrgð á miklum loftárásum á landið, hafa náin tengsl við Bandaríkin. „Óman tekur ekki þátt í stríðinu en þangað geta Jemenar heldur ekki flúið. „Þeir geta ekkert farið, ekkert flúið undan stríðinu.“

Fjölskyldusaga Örwu er stórmerkileg. Afar hennar voru soldánar og valdamiklir …
Fjölskyldusaga Örwu er stórmerkileg. Afar hennar voru soldánar og valdamiklir menn í Jemen á fyrri hluta síðustu aldar.

Af soldánaættum

Fjölskyldusaga Örwu er stórmerkileg. Eitt sinn voru soldánadæmi í Jemen líkt og víða í arabaheiminum og í þeim liggja rætur beggja foreldra hennar, m.a. í Al-Fadhli-soldánsdæminu sem var stórt og vel þekkt. Afar hennar voru báðir þátttakendur í stjórnmálum, líkt og hefð var fyrir. Þeir voru efnaðir en með komu Breta til Arabíuskagans liðu soldánsdæmin undir lok og síðustu soldánarnir misstu völd sín og mestan hluta eigna sinna um og eftir miðja 20. öldina.

Móðurafi Örwu hafði afsalað sér völdum og Bretarnir sögðu honum að yfirgefa landið og fara til Zanzibar við strendur Afríku. Hann mátti taka þrjár af eiginkonum sínum með sér og aðeins lítinn hluta eigna sinna. Í eiginkvennahópnum var amma Örwu. „Afi var ástfanginn af einni konu sinni. Hann vildi taka hana með. En hún var sterk og útsjónarsöm og ráðlagði honum að taka frekar aðrar. Hún sagði að hún myndi bíða eftir honum. Hann myndi koma aftur. Það sem hún svo gerði er ótrúlegt. Þar sem afi mátti aðeins taka litla peninga með sér þá lét hún bræða gull og húða spegil með því. Hún saumaði einnig gull inn í föt hinna eiginkvennanna af því hún vissi að Bretarnir myndu ekki snerta konurnar. Hún sagði þeim að segja afa ekki frá þessu fyrr en þau væru komin frá Jemen. Þetta varð til þess að afi gat stofnað fyrirtæki á Zanzibar og séð fyrir fjölskyldu sinni. Hún aðstoðaði svo afa að komast aftur til Jemen. Ég hitti þessa konu aldrei en amma sagði mér frá henni. Hún var sterk, gáfuð og falleg.“

Móðir Örwu fæddist því á Zanzibar en flutti síðar til Jemen. Þaðan þurfti hún hins vegar að flýja ásamt fjölskyldu sinni nokkru síðar og þá til Sádi-Arabíu.

Stofnaði kvennaskóla

Föðurafi Örwu var ekki síður merkilegur. Hann hafði mikinn áhuga á menntun kvenna og var í fararbroddi í þeim málum á sínum heimaslóðum í Jemen. Verandi valdamikill maður stofnaði hann stúlknaskóla árið 1945. Hann lést langt fyrir aldur fram, aðeins 32 ára. Hann féll fyrir hendi breskra hermanna.

Fjölskyldan saman í Sádi-Arabíu.
Fjölskyldan saman í Sádi-Arabíu. Úr einkasafni

Faðir Örwu gekk í Oxford-háskóla. Hann tók einnig þátt í stjórnmálum eins og afar hennar. Hann hefur nú verið búsettur í Sádi-Arabíu um árabil. Hann var um tíma kvæntur íslenskri konu áður en hann kvæntist móður Örwu og eignuðust þau einn son. Sá heitir Ómar og er hvatamaður að því að Arwa settist að á Íslandi fyrir áratug.

Flókið ástand en hjálp nauðsynleg

Arwa segir að vissulega séu stjórnmálin í Jemen flókin. Norður- og Suður-Jemen voru sameinuð árið 1990 Ali Abdullah Saleh sem átti að leiða landið inn í framtíðina mistókst ætlunarverkið. Arwa er ekki á því að aðskilnaður sé rétta leiðin svo að friður komist á eins og sumir eru að krefjast. Suðurhluti landsins sé varla sjálfbær enda erfiður til ræktunar. Þá er olíu að finna í norðurhluta landsins.

„En þó að pólitíkin sé flókin þá verður að reyna að hjálpa fólkinu. Það er það eina sem ég hugsa um núna. Það verður að koma mat, vatni og lyfjum til fólksins. Það hefur verið erfitt að koma slíku til landsins og á meðan er fólk að deyja. Á hverjum degi. Við getum vonandi hjálpað þeim til að hjálpa sér sjálfir. Þess vegna ætlum við að hitta Katrínu forsætisráðherra. Við viljum hvetja hana til að gera eitthvað.“

Arwa vonar að hún komist einhvern tímann aftur til Jemen. „Ég vil fara með son minn þangað og leyfa honum að kynnast landinu. Ég vil segja honum frá fjölskyldunni og sýna honum allt. Vonandi verður þetta mögulegt einn daginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert