Innri endurskoðun rannsakar tilkynninguna

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn kynna …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn kynna hér niðurstöðu á rannsókn á verkferlum lögreglu í málinu. Málið verður einnig skoðað hjá velferðarsviði borgarinnar. mbl.is/Eggert

Unnið hefur verið að því að afla upplýsinga um mál starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur sem grundaður er um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, frá því að upplýst var um málið. Þetta kemur fram í skriflegu svari velferðarsviðs við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lagt var fram í borgarstjórn á þriðjudag.

Í svarinu segir enn fremur að velferðarsvið og barnaverndarnefnd taki málið mjög alvarlega.

Borgarfulltrúarnir höfðu óskað eftir svari við eftirfarandi fyrirspurn: „Hvernig gat það viðgengist að starfsmaður Reykjavíkurborgar sem grunaður var um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum starfaði áfram með þeim? Hvenær var borgarstjóri upplýstur um málið, hvernig var brugðist við og hvaða ráðstafanir voru gerðar?“

Velferðarsvið segir framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur hafa fengið upplýsingar um málið á fundi með lögreglu 18. janúar síðastliðinn og samdægurs hafi hún upplýst sviðsstjóra um málið og strax næsta dag hafi hinn grunaði verið handtekinn og settur í gæsluvarðhald.

Starf barnaverndarnefnda sé ópólitískt og þær njóti faglegs sjálfstæðis. Það hafi því verið sviðsstjóra velferðarsviðs að upplýsa borgarstjóra um málið. Fulltrúar velferðarsviðs og barnaverndarnefndar farið ítarlega yfir málið á fundi borgarráðs og á fundi velferðarráðs 1. febrúar sl.

Segir velferðarsvið hafa verið látið að því liggja í umræðum á Alþingi og í fjölmiðlum að barnaverndarnefnd teldi eðlilegt að tilkynningu um starfsmann sem hefði gerst brotlegur við börn, væri vísað frá þar sem um lögráða einstaklinga væri að ræða. „Það er fjarstæðukennt að barnaverndarnefnd telji eðlilegt að vísa slíkum tilkynningum frá þegar um er að ræða starfsmenn sem starfa með börnum. Slíka tilkynningu hefði að sjálfsögðu átt að taka alvarlega og ljóst er að starfsmaður með slíkan bakgrunn ætti alls ekki að starfa með börnum,“ segir í svarinu.

Engin spor hafi hins vegar enn fundist varðandi þær fullyrðingar að tilkynnt hafi verið um manninn til barnaverndar árið 2002 og hvorki lögregla né réttargæslumaður hafi getað gefið vísbendingar þar um. „Hins vegar hefur aðili gefið sig fram sem segist hafa hringt árið 2008 með nafnlausa ábendingu um þennan tiltekna starfsmann. Ekki er enn vitað hver tók við símtalinu og innri endurskoðun Reykjavíkurborgar rannsakar nú hvers vegna tilkynningin barst ekki til stjórnenda barnaverndar,“ segir velferðarsvið og segir þeirri rannsókn ekki vera lokið.

Velferðarsvið og barnaverndarnefnd leggi ríka áherslu á að allir fletir málsins verði kannaðir ítarlega í samvinnu við innri endurskoðun borgarinnar. Framkvæma eigi sérstakt áhættumat á allri starfsemi barnaverndar og endurskoða alla verkferla varðandi ábendingar og tilkynningar til barnaverndar með það að markmiði að koma í veg fyrir að mistök eigi sér stað.

„Loks hefur viðamikil úttekt verið í undirbúningi á barnaverndarstarfi Reykjavíkurborgar í heild sinni og starfsaðstæðum barnaverndarstarfsmanna. Sú rannsókn var ákveðin áður en þetta mál kom upp og mun atburðarrás síðustu daga og vikna hafa áhrif á innihald þeirrar úttektar.“

Í ljósi þessa og vegna þess að umræða um slík mál sé eðli málsins viðkvæm er þess óskað að umræða um einstök barnaverndarmál fari fram á vettvangi borgarstjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert