Saur makað á útidyrahurðina

Landsréttur er með aðsetur í Kópavogi.
Landsréttur er með aðsetur í Kópavogi. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að kona skuli sæta nálgunarbanni gagnvart barnsföður sínum í sex mánuði. Ekki var fallist á að konan skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart tveimur sonum þeirra eins og Héraðsdómur Reykjaness hafði úrskurðað. 

Staðfest var ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að konan megi ekki koma á eða í námunda við heimili barnsföður síns í Hafnarfirði á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus frá miðju hússins.

Einnig var lagt bann við því að konan veiti manninum eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 14. febrúar var staðfest  ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 6. febrúar um að konan skyldi sæta nálgunarbanni í sex mánuði gagnvart barnsföður sínum.

Hinn 11. janúar 2018 úrskurðaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar að drengirnir skyldu teknir af heimili konunnar og vistaðir á vegum barnaverndarnefndar í tvo mánuði.

Sameiginleg forsjá

Fram kemur úrskurði Landsréttar að konan og barnsfaðir hennar muni fara sameiginlega með forsjá drengjanna en þeir eiga lögheimili hjá móður sinni. Barnaverndaryfirvöld ráðgera að konan fái að umgangast drengina undir eftirlit barnaverndarstarfsmanns og að því tilskildu að hún haldi sig frá neyslu fíkniefna.

Braut þrjá glugga með hamri 

Í úrskurði héraðsdóms vísaði lögreglustjóri til þess er konan fór heimildarlaust inn í íbúð barnsföður síns og gerði kröfu um að hitta drengina. Þegar hann vísaði henni út tók hún upp hamar og braut þrjá glugga á útidyrahurðinni og sýndi af sér ógnandi hegðun.

Einnig er vísað til þess að 7. desember í fyrra hafi starfsmaður Barnaverndar tilkynnt að saur hafi verið makað á útidyrahurðina á heimili sínu. Taldi hann konuna hafa gert þetta í í framhaldi af því að barnaverndarstarfsmaðurinn hafði tekið ákvörðun um að senda syni konunnar í vistun, samkvæmt úrskurði.

Faldi sig inni í skáp 

Einnig vísaði lögreglustjóri til þess að barnsfaðir konunnar hefði tilkynnt lögreglu um að hann hefði áhyggjur af konunni sem hafi hótað sér öllu illu. Þá var nýlega búið að taka drengina af konunni vegna fíkniefnanotkunar.

Lögreglustjóri vísaði einnig til þess að í mars 2015 hafi konan farið á heimili hans með ógnandi hegðan. Sambýliskona mannsins þurfti að fela sig inni í skáp í svefnherbergi og verið mjög hrædd. Eldri sonurinn hafi einnig verið mjög hræddur en yngri soninn hafði konan á brott með sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert