Skilur ekkert í „ísköldu mati“ Bjarna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segist ekkert skilja í nýjasta „ískalda hagsmunamati“ Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í tengslum við sölu ríkisins á hlut í Arion banka.

„Hann bendir réttilega á að haftalosunarplanið hafi heppnast frábærlega og skilað gríðarlegum upphæðum í ríkissjóð en á sama tíma vill hann hverfa frá grunnforsendum þess plans og taka upp stefnu vinstristjórnarinnar frá 2009,“ skrifar Sigmundur Davíð á Facebook-síðu sína og vísar í umræðu um málið á Alþingi í dag.

Sigmundur Davíð segir muninn á þessu tvennu birtast í því að vinstristjórnin hafi afhent vogunarsjóðum bankana en að „við“ hefðum endurheimt bankana fyrir hönd almennings og einnig önnur, gífurleg verðmæti.

„Nú dúkka upp gömlu frasarnir úr Icesave-stríðunum um að við megum ekki styggja fjárfesta. Árangurinn 2013-16 náðist hins vegar með því að nýta fullveldisrétt ríkisins og gera það sem þurfti til að verja hagsmuni almennings,“ skrifar hann.

„Kosningastefna Miðflokksins snerist einfaldlega um að klára planið frá 2013-16 og nýta einstakt tækifæri til að koma á heilbrigðu bankakerfi á Íslandi.“

Hann bætir við að við séum komin aftur til ársins 2009. Sjóðirnir séu ekki aðeins búnir að ná til sín stærsta banka landsins heldur sjái ráðherrar ástæðu til að fagna því sem glæsilegri niðurstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert