Uppsagnir hjá sýslumanni Vestlendinga

Búðardalur.
Búðardalur.

Talsverðar breytingar eru fram undan í hagræðingarskyni á skrifstofum sýslumannsins á Vesturlandi. Starfsmönnum verður fækkað um þrjá og starfshlutfall þriggja annarra verður lækkað, en tilkynnt var um þessar breytingar í síðustu viku.

Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi K. Ólafssyni, sýslumanni á Vesturlandi, hefur rekstrargrundvöllur embættisins verið erfiður eins og annarra sýslumannsembætta. Fram undan sé vinna með starfsmönnum embættisins við að móta embættið miðað við breyttar forsendur.

Viðræður um minna húsnæði


Á aðalskrifstofunni í Stykkishólmi eru sjö starfsmenn hjá sýslumanni og hefur einum verið boðið 50% starfshlutfall í stað fulls starfs. Á sýsluskrifstofunni í Borgarnesi eru fjórir starfsmenn og þar hefur einum starfsmanni verið boðin sama breyting á starfshlutfalli, þ.e. úr 100% í 50%.

Á sýsluskrifstofunni á Akranesi eru sex starfsmenn og þar hefur lögfræðingi verið sagt upp störfum og einum starfsmanni hefur verið boðið lægra starfshlutfall; úr 100% í 50%. Í útibúinu í Búðardal eru 3 starfsmenn í 1,6 stöðugildum. Tveimur starfsmönnum, öðrum í 50% starfshlutfalli og hinum í 65% starfshlutfalli, hefur verið sagt upp.

Þetta kemur fram í upplýsingum frá sýslumanni Vestlendinga og jafnframt segir þar að um 80% af rekstrarkostnaði embætta sýslumanna sé launakostnaður. Af því, sem þá er eftir, sé stærsti einstaki kostnaðarliðurinn vegna húsnæðis. Samhliða fækkun starfsmanna verði teknar upp viðræður við Fasteignir ríkissjóðs um að minnka það húsnæði, sem embættið hefur á leigu.


Sár vonbrigði

Sveitarstjórn Dalabyggðar fjallaði um breytingar á skrifstofu sýslumanns í Búðardal síðasta þriðjudag og í ályktun eru rifjaðar upp breytingar á lögum frá 2014 þar sem sýslumannsembætti voru sameinuð. „Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur vissan skilning á því að auka þurfi rekstrarafgang ríkissjóðs en mótmælir því að til þess þurfi ríkisvaldið að ganga á bak orða sinna á svo augljósan hátt og ná inn hagræðingu með því að skera svo gróflega niður opinber störf í sveitarfélaginu,“ segir í ályktuninni.

Og enn fremur: „Það eru því sár vonbrigði að upplifa þennan niðurskurð hjá útibúi sýslumannsins í Búðardal skömmu eftir sameiningu embættanna sem kynnt var sem aðgerð til styrkingar en hefur þveröfug áhrif í Dalabyggð.“

Búðardalur.
Búðardalur. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert