Árangurstengdar greiðslur í heilsugæslu

Heilsugæsla miðbæjarins við Vesturgötu er ein 15 opinberra heilsugæsla á …
Heilsugæsla miðbæjarins við Vesturgötu er ein 15 opinberra heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins hafa fengið árangurstengdar greiðslur frá ríkinu síðan í byrjun síðasta árs.

Árið 2016 var um tilraunaverkefni að ræða en 1. janúar 2017 hófst verkefnið að sænskri fyrirmynd þar sem allar heilsugæslustöðvarnar fengu greitt eftir þessu líkani.

„Það er verið að fara eftir því sem gert hefur verið á Norðurlöndum á undanförnum árum þar sem þeir hafa beitt þessari aðferð til þess að greiða heilsugæslustöðvunum fyrir þá þjónustu sem þær veita,“ segir Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá málinu.

Hann segir þetta vera gert til að bæta þjónustuna, meðal annars til að fá fólk til að skrá sig á heilsugæslustöðvarnar til að tryggja fjármögnun og til að vinnan við að sinna sjúklingunum sé vönduð. Einnig er verið að greiða betur þeim heilsugæslustöðvum sem hafa erfiðari sjúklinga og veikara fólk.

Sem dæmi um alvarlega sjúkdóma nefnir hann lungnasjúkdóma, sykursýki og andleg vandamál. Þannig geti heilsugæslustöðvar sem þurfi að sinna mörgum sem glíma við andleg veikindi fengið aukinn pening til að ráða til sín sálfræðinga eða geðhjúkrunarfræðinga.

Óskar Reykdalsson.
Óskar Reykdalsson. Ljósmynd/Aðsend

Óskar segir verkefnið hafa gengið ágætlega og skilað sér í aukinni samkeppnishugsun á milli heilsugæslustöðva. „Það er verið að prufukeyra þetta og stilla inn þessum gæðaþáttum og reyna að koma fjármagninu inn á mismunandi gæðaþætti,“ útskýrir hann.

Sem dæmi nefnir hann gæðaþátt á borð við bólusetningu gegn inflúensu fyrir þá sem eru í áhættuhópum. Reiknað er út hvernig verkefnið gengur á hverri stöð fyrir sig og greitt eftir því.

Einnig segir hann mikilvægt að þeir sem eru skráðir á ákveðna heilsugæslustöð leiti á þá stöð og fá stöðvarnar borgað eftir því hvernig þetta gengur. Óskar nefnir að átaksverkefni sé einnig í gangi þess efnis að heilsugæslustöðvar hvetji fólk til að nýta sér vefsíðuna Heilsuveru í auknum mæli þar sem hægt er að bóka tíma rafrænt, panta lyf eða hafa samskipti við heimilislækni.  

Hann bætir við um verkefnið: „Þetta er ofsalega góð leið til að stýra fjármagninu. Þetta eru miklir peningar í húfi sem er verið að deila og það er mjög mikilvægt að þessu sé skynsamlega dreift til þeirra sem mest þurfa á fjármagninu að halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert