Innbrotsþjófar handteknir í Garðabæ

Útsýni yfir Garðabæ.
Útsýni yfir Garðabæ. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveir karlmenn eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu grunaðir um innbrot í heimahús í Garðabæ á tíunda tímanum í morgun.
Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, segir í tilkynningu frá lögreglunni, en samkvæmt upplýsingum á Facebook-síðu íbúa í Garðabæ þá voru tvímenningarnir staðnir að verki við innbrot við Dalsbyggð. 

Að sögn íbúa hússins hafa þessir sömu menn sést á vettvangi við önnur innbrot í Garðabæ.

Líkt og fram hefur komið á mbl.is hafa tugir innbrota verið framdir á höfuðborgarsvæðinu undanfarna mánuði, þar af fjölmörg í Garðabæ. Talið er að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni verða tvímenningarnir yfirheyrðir og áfram unnið að rannsókn málsins en ekki er vitað á þessari stundu hvort þeir tengist fleiri innbrotum á svæðinu. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, út í innbrotafaraldurinn á Alþingi í gær en þar kom fram í máli ráðherra að hún hafi átt fund nýverið með stjórnendum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ræddi meðal annars þá innbrotahrinu sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum.

Þar kom fram að lögreglan er meðvituð um stöðuna og leggur sig fram við að gera það sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir þessi brot og upplýsa þau. Lögreglan hefur einnig lagt áherslu á og brýnt það fyrir almenningi að huga að forvörnum á heimilum sínum.

Þá kom fram að ráðherra hafi óskað eftir eftir almennri umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um hvort gripið hefði verði til sérstakra aðgerða vegna þeirrar innbrotahrinu sem þingmaðurinn hafi vísað til. Í svari embættisins verið greint frá því að embættið líti innbrot alvarlegum augum og að það sé mjög ofarlega í forgangi að upplýsa slík brot. Í umsögninni kom einnig fram að vegna þeirra innbrotamála sem hafa komið upp á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu hafi teymi rannsóknarlögreglumanna og annarra sérfræðinga hjá LRH verið sett saman til að vinna að rannsóknum þessara mála. Jafnframt hafi eftirlit verið aukið eftir mætti. Í einhverjum tilfellum sé um skipulagða brotastarfsemi að ræða sem kalli á annars konar vinnu en í hefðbundnum þjófnaðarbrotum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert