Mennirnir orðnir kaldir og þrekaðir

Ljósmynd/Lögreglan á Norðurlandi eystra

Fjórir karlmenn, sem bjargað var út klettafjöru sunnan við Dalvík um þrjúleytið í dag, voru orðnir kaldir og þrekaðir þegar þeir voru fluttir með sjúkrabifreiðum á sjúkrahús á Akureyri samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Mennirnir voru á litlum báti út af Hálshorni rétt sunnan við bæinn þegar honum hvolfdi. Þurftu þeir að synda nokkra tugi metra í land en lentu í sjálfheldu í áðurnefndri klettafjöru og hringdu þá eftir aðstoð. Fjölmennt lið viðbragðsaðila var sent á staðinn.

Björgunarsveitarmenn á bát náðu að komast fljótlega að mönnunum og hlúa að þeim. Ekki reyndist hins vegar mögulegt að bjarga mönnunum sjóleiðina vegna brims og voru þeir því hífðir upp klettana. Mennirnir voru allir með meðvitund og gátu gengið sjálfir.

Bátinn, sem þeir voru á og er opinn trefjaplastbátur með utanborðsmótor, rak að landi skammt frá björgunarstaðnum skömmu eftir að mennirnir komust í land. Björgunarsveitarmönnum tókst að koma bátnum aftur á flot og inn í höfnina á Dalvík.

Björgunarsveitir á Dalvík og Ólafsfirði voru kallaðar út vegna slyssins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert