Leið í leikjafræði gagnvart ríkisstjórninni

Birgir Ármannsson segir sum stjórnmálaöfl í landinu nærast á vantrausti.
Birgir Ármannsson segir sum stjórnmálaöfl í landinu nærast á vantrausti. mbl.is/Eggert

„Hér var talað um að rísa upp úr vantrausti og ég verð að segja það að sú umræða sem á sér stað hér í dag gefur mér alla vega til kynna að sum stjórnmálaöfl í þessu landi virðast vilja nærast á vantrausti og ala á vantrausti,“ sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðu um vantrauststillögu á hendur Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra á Alþingi í dag. Hann sagði jafnframt mikilvægt að hafa í huga að dómsmáli um ógildingu á skipun dómara við Landsrétt hefði verið hafnað. Aðeins hefði verið ágreiningur um mat á því hvernig matskennd regla hefði verið framkvæmd.

Birgir sagði mörg orð hafa fallið í umræðunni, sumt ýkjur og stóryrði, annað málaefnaleg sjónarmið. Fannst honum rétt að taka það fram, til áréttingar, að auðvitað væru það fullkomlega málefnaleg sjónarmið við skipun dómara að taka aukið tillit til dómarareynslu.

„Það er ekki hægt að halda því fram að það séu ólögmæt sjónarmið eða ómálefnaleg sjónarmið. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að ágreiningurinn sem á endanum stóð upp úr í hæstaréttarmálinu sem hér er til umræðu snerist um það hversu vel rannsókn hefði farið fram. Ekki um aðra þætti. Það var búið að hafna dómsmáli um ógildingu á skipun dómaranna og fjalla um fjölmörg önnur atriði sem voru tínd til. Þarna var um að ræða ágreining um mat á því hvernig matskennd regla hefði verið framkvæmd. Það er nú stórmálið sem hér er til umræðu og gefur ekki tilefni til þeirra stóryrða um vantraust á réttarkerfinu og hrun lýðræðis á Íslandi og ég veit ekki hvað menn hafa sagt hérna. Það gefur ekki tilefni til þess.“

Birgir sagði ljóst að hjá sumum snerist umræðan ekki eingöngu um Landsréttarmálið, heldur brytist út andstaða við ráðherrann út af fleiri málum.

„Að sumra mati snýst þetta eingöngu um þetta mál. Að sumu leyti er hins vegar um að ræða greinilega, sem brýst fram hér, andstöðu við þennan ráðherra, jafnvel út af einhverjum öðrum málum. Það hefur komið fram í umræðunni. Fyrir suma greinilega þá er þetta leið í einhverri leikjafræði gagnvart ríkisstjórninni. Það hefur líka komið fram.“ Birgir sagði mikilvægt að þetta í huga við atkvæðagreiðsluna.

„Það er eitt atriði sem ég vildi nefna sérstaklega vegna þess að það hafa nokkrir háttvirtir þingmenn, einkum af hálfu Viðreisnar, og reyndar Flokks fólksins líka, vikið sérstaklega að því að ráðleggingar embættismanna hefðu gengið á annan veg og ráðherra hefði verið skyldug til að upplýsa um það í málsmeðferð í þinginu. Það vill svo til að í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var mjög mikið tekist á um þetta efnisatriði. Fræðimenn sem komu fyrir nefndina höfðu uppi sjónarmið af þessu tagi. Fulltrúar allra flokka, þar á meðal Viðreisnar, voru viðstaddir þá umræðu og gengu til atkvæðagreiðslu meðvitaðir um það að það var ágreiningur, lögfræðilegur ágreiningur, um það hvernig matskenndri reglu 10. greinar stjórnsýslulaga væri fullnægt að þessu leyti. Það var ekki eins og það væri eitthvað leyndarmál að um það væru skiptar skoðanir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert